Tálknafjörður: athugasemdir við fjárhagsáætlun 2023

Sveitarstjórn Tálknafjarðarhrepps í upphafi fundar númer 600. Talið frá vinstri: Jóhann Örn Hreiðarsson, varaoddviti, Jón Ingi Jónsson, Lilja Magnúsdóttir, oddviti, Guðlaugur Jónsson og Jenný Lára Magnadóttir.

Eftirlitsnefnd um fjármál sveitarfélaga, EFS, gerir athugasemdir við fjárhagsáætlun Tálknafjarðar fyrir 2023. Í bréfi nefndarinnar til sveitarstjórnar dags 28.2. 2023 segir að fjárhagsáætlunin uppfylli ekki öll lágmarksviðmið eftirlitsnefndar fyrir A-hluta.

Eftirlitsnefndin leggur áherslu á það við sveitarstjórn að nauðsynlegt sé að fara vel yfir fjárhagslegar forsendur sveitarfélagsins til að ná lágmarksviðmiðum EFS.

Nettóskuldir sveitarfélagsins eru 149,5% af tekjum og skal þá rekstrarniðurstaða sveitarfélagsins vera jákvæð en er samkvæmt fjárhagsáætluninni halli upp á 17,2% af tekjum. Þá á framlegð að vera jákvæð um 14,9% en er neikvæð um 3,9% og loks á veltufé frá rekstri að vera jákvætt um 7,5% af tekjum en er neikvætt um 6,7%.

Sveitarfélögum er samkvæmt bráðbirgðaákvæði VII í sveitarstjórnarlögum nr. 138/2011 heimilt að víkja frá skilyrðum um jafnvægisreglu og skuldareglu út árið 2025 en EFS bendir sveitarstjórn á að árið 2026 þarf að uppfylla framangreind skilyrði.

Bréfið var lagt fram í sveitarstjórn og rætt en ekki brugðist að öðru leyti við erindinu.

DEILA