Alþingi: Skólamáltíðir í grunnskóla verði ókeypis

Grunnskólinn á Ísafirði.

Lagt hefur verið fram á Alþingi frumvarp til laga um gjaldfrjálsar skólamáltíðir í grunnskólum. Er frumvarpið í samræmi við yfirlýsingu ríkisstjórnarinnar við gerð kjarasamninga á almennum vinnumarkaði. Gert er ráð fyrir að Jöfnunarsjóður sveitarfélaga úthluti árlega til sveitarfélaga sem bjóða öllum nemendum upp á gjaldfrjálsar skólamáltíðir í grunnskólum frá 1. ágúst 2024 til loka árs 2027. Áætlaður kostnaður er 5 milljarðar króna á ári og mun ríkissjóður greiða 75% kostnaðarins eða 3.750 m.kr. í gegnum Jöfnunarsjóðinn en sveitarfélögin bera 25% kostnaðar. Þá er gert ráð fyrir að fjárhæðin taki breytingum á árunum 2025–2027 samkvæmt almennri verðlagsuppfærslu fjárlaga hverju sinni.

Ákveðið sveitarfélag sem hefur fengið úthlutað úr Jöfnunarsjóði síðar að taka gjald fyrir skólamáltíðir þarf það að endurgreiða fengin framlög.

Í greinargerð með frumvarpinu segir að rekstur grunnskóla sé á ábyrgð sveitarfélaga og að það sé lögbundið verkefni sveitarfélaga að bjóða grunnskólabörnum máltíð á skólatíma. Sömu reglur munu gilda um sjálfstætt rekinn grunnskóla með þjónustusamning við sveitarfélag, sem tekur gjald fyrir skólamáltíðir.

Þá segir að með frumvarpinu sé ekki gerð breyting á heimildum sveitarfélaga til að taka ákvörðun um að taka gjald fyrir skólamáltíðir sem er nú þegar lögbundið hlutverk sveitarfélaga, sbr. 23. gr. laga um grunnskóla. Fellur það því enn undir sjálfstjórn sveitarfélaga að ákvarða hvernig kostnaði við skólamáltíðir í grunnskólum er háttað. 

Grundvallarskilyrðið fyrir úthlutun Jöfnunarsjóðs sé fyrst og fremst að sveitarfélög sýni fram á að skólamáltíðir séu gjaldfrjálsar að öllu leyti og fyrir alla nemendur. Heildaráhrif á fjárhag sveitarfélaga ráðast því af útfærslu hvers sveitarfélags fyrir sig um gjaldfrjálsar skólamáltíðir.

DEILA