Orkuþing Vestfjarða 2023 – Vestfirðir – í átt að orkuskiptum

Samkeppnisstaða Vestfjarða í orkumálum hefur verið landshlutanum dragbítur um áratuga skeið, áhrifin eru verri launaþróun, færri atvinnutækifæri og minni áhugi fyrir fjárfestingum innan landshlutans.

Orkuframleiðsla á Vestfjörðum er innan við helmingur af eftirspurn og ef horft er til samhengis við aðra landshluta, þá eru ekki til staðar stórir virkjanakostir í vatnsafli eða jarðhita, en líklega vindorka ef horft til framtíðar. Afhendingargeta flutningskerfis raforku er síðan takmörkuð við eina ótrygga flutningslínu við aðra hluta landsins.

Stjórnvöld hafa um langa hríð haft að markmiði að vinna að úrlausn orkumála á Vestfjörðum og náð að hluta árangri. En til að tryggja afhendingaröryggi hefur jarðefnaeldsneyti verið nýtt sem lausn til að tryggja varaafl, en sú lausn mætir ekki þeirri eftirspurn sem er til staðar í dag. Samrekstur veiks flutningskerfis og orkuframleiðslu sem svarar ekki eftirspurn, veldur síðan erfiðleikum í að stýra orkukerfi og hefur leitt að lokum til lakari gæða í afhendingu raforku og tapi á orku í flutningskerfinu.

Stjórnvöld hafa nú sett sem dagskipun að stuðla að orkuskiptum úr jarðefnaeldsneyti yfir í sjálfbæra orku fyrir árið 2040 og í raun fyrr í orkuskiptum innanlands, eða um og eftir árið 2030. Með tilliti til orkukerfisins á Vestfjörðum er augljós er sá ómöguleiki sem aðild Vestfirðinga er í þeirri vegferð stjórnvalda, nema brugðist sé nú þegar við.

Stjórnvöld hafa svarað ákalli sveitarfélaga og atvinnulífs á Vestfjörðum að nokkru leyti. Starfshópur umhverfis, orku og loftlagsráðherra sem skipaður var í júní 2021, kynnti í apríl á síðasta ári, metnaðarfulla aðgerðaáætlun í tólf liðum til að mæta áskorunum í flutningsmálum, dreifikerfi og orkuframleiðslu innan Vestfjarða https://www.stjornarradid.is/library/02-Rit–skyrslur-og-skrar/Raforkumal_Vestfjarda_skyrsla_2022.pdf  Þær aðgerðir voru í sama mánuði kynntar á málþingi Fjórðungssambands Vestfirðinga á Ísafirði um orkumál á Vestfjörðum og nokkrum verkefnum á grundvelli tillagna starfshópsins hefur verið hrint af stað.

Alþingi samþykkti einnig fyrir ári síðan, Rammaáætlun 3 sem setur tvo virkjunarkosti á Vestfjörðum í nýtingarflokk þ.e. Hvalá og Austurgilsvirkjanir. Hvorugur þessara virkjanakosta liggur hinsvegar nærri núverandi flutningskerfi, en með tengingu þeirra mun verða mætt eftirspurn raforku á Vestfjörðum í dag og á næstu árum, bæði í orkuskiptum og til stækkandi atvinnulífs og samfélaga. Orkuverkefnið Blámi hefur síðan verið ötult frá stofnun þess í byrjun árs 2021, að greina stöðu og vinna að tillögur að framtíðarlausnum í orkuskiptum.

Nýr starfshópur umhverfis, orku og loftlagsráðherra var skipaður í desember s.l. og er enn að störfum. Markmið þess starfshóps, er að setja fram tillögur er snúi að jarðhitaleit, aukinni orkuöflun, þjóðgarði á Vestfjörðum, eflingu hringrásarhagkerfisins og grænni atvinnuuppbyggingu á Vestfjörðum, sem og eftirfylgni með tillögum starfshóps um raforkumál á Vestfjörðum frá síðasta ári.

Orkumál á Vestfjörðum eru því á hreyfingu, en reynslan segir, að stöðugt þarf að minna á og upplýsa um framgang verkefna. Fjórðungssamband Vestfirðinga og Blámi hafa því sameinast um að viðhalda umræðunni með reglulegum hætti. Því er boðað til málstofu þann 12. apríl n.k. undir heitinu Orkuþing Vestfjarða 2023, Vestfirðir – í átt á orkuskiptum. Orkuþing Vestfjarða 2023 – Vestfirðir í átt að orkuskiptum | Vestfjarðastofa (vestfirdir.is)

Hér er ætlað að gefa þeim aðilum sem koma að úrlausn orkumála á Vestfjörðum, tækifæri að kynna stöðu sinna verkefna, upplýsa um hindranir, hvað hefur áunnist og hver eru næstu skref. Eins verður tekið til umfjöllunar, framtíðarhorfur í orkumálum og orkuskiptum á Vestfjörðum og áhrif þeirra á samfélag og atvinnulíf landshlutans.

Þess er vænst að Orkuþing Vestfjarða 2023, gefi þannig yfirsýn og færi á að tímasetja vörður þá þeirri leið, að skapa samkeppnishæft orkukerfi fyrir samfélög og atvinnulíf á Vestfjörðum, stuðla að nýsköpun, laða að fjárfestingu, en síðast en ekki síst að stuðla að fullri þátttöku Vestfirðinga í orkuskiptum.

Aðalsteinn Óskarsson, sviðsstjóri, Vestfjarðastofu

Þorsteinn Másson, framkvæmdastjóri, Bláma

DEILA