Maskína: Samfylkingin mælist stærsti flokkurinn

Samfylkingin mælist langstærsti flokkurinn á Alþingi í nýrri könnun Maskínu. Flokkurinn fengi 25,7% fylgi sem er 7% meira fylgi en Sjálfstæðisflokkurinn fær í könnuninni 18,7%.

Þrír næstu flokkar fá liðlega 10% fylgi hver og svo eru fjórir flokkar sem mælast undir 10%, þar af eru tveir með minna en 5% fylgi.

Alls munu sjö flokkar fá mann kjörinn á Alþingi ef kosningar færu eins og könnunin sýnir, einum færri en nú er. Það er flokkur fólksins sem fer undir 5% og myndi þvi ekki fá jöfnunarþingsæti og ólíklega kjördæmaþingsæti.

Breytingar í Norðvesturkjördæmi

Maskína greinir svörin eftir landssvæðum en þau fylgja ekki að öllu leyti kjördæmamörkum. Gefið er upp fylgi flokkanna á Vestfjörðum og á Vesturlandi en ekki Norðvesturkjördæmi og munar þar um Húnavatnssýslur og Skagafjörð sem eru í Norðvesturkjördæmi en Maskína lætur fylgja Norðurlandi.

Töluverðar breytingar yrðu á fylgi flokkanna frá síðustu Alþingiskosningum ef úrslit í Norðvesturkjördæmi yrðu eins og tölurnar fyrir Vestfirði og Vesturland eru nú.

Samfylkingin mælist stærst með 24,3% fylgi. Sjálfstæðisflokkurinn kemur næstur með 23,4%, þá Framsóknarflokkurinn með 13,6%, Píratar með 11,6%, Viðreisn 9,6%, Vinstri grænir 7,6%, Flokkur fólksins 2,2% og Sósíalistaflokkurinn 1,7%.

Ef kjördæmaþingsætunum sjö er skipt samkvæmt þessum tölum fengju Samfylkingin og Sjálfstæðisflokkurinn tvo þingmenn hvor, Framsókn, Píratar og Viðreisn einn hver.

Samfylkingin myndi vinna tvö þingsæti og Píratar og Viðreisn eitt hvor, en Framsókn myndi tapa tveimur þingsætum og Vinstri grænir og Flokkur fólksins einu hvor.

DEILA