Ísafjörður: bæjarráð fellst á afslátt af byggingarleyfisgjöldum í Engidal

Efri Engidalur. Mynd: Bændablaðið.

Bæjarráð hefur fallist á að leggja til 30% afslátt af byggingarleyfisgjöldum iðnaðarhúsbyggingar í Kirkjubólslandi í Engidal. Bæjarstjórn mun taka afstöðu til tillögunnar á næsta fundi sínum.

Í byrjun mars sl. hafnaði bæjarráð erindi  Ómars Helgasonar f.h. Aðstöðunnar sf. sem hafði óskað eftir því að byggingarlyefisgjöldin yrðu felld niður. Nokkrun dögum síðar var sent annað erindi þar sem óskað vareftir því að bæjarráðið endurskoðaði ákvörðun sína. Var síðara erindið afgreitt á mánudaginn.

Lögð voru fram minnisblöð frá sviðsstjóra umhverfis- og eignasviðs og sviðsstjóra stjórnsýslu- og fjármálasviðs þar sem lagt var til við bæjarráð að taka afstöðu til síðari beiðnar umsækjanda, með hliðsjón af upplýsingum sviðsstjóranna.

Í erindi umsækjanda er áréttað að sótt er um niðurfellingu vegna þess að ásókn er lítil í viðkomandi lóðir, sem er tilgreint í lögum um gatnagerðargjald sem heimild til lækkunar gjaldanna. Ekki hafi verið ásókn í lóðir í Engidal í áratugi vegna kvaða sem fylgir því að vera á snjóflóðahættusvæði.

Fram kemur í minnisblaði sviðsstjóra stjórnsýslu- og fjármálasviðs að lóð sú er óskað er eftir er á hættumatssvæði B. Ekki eru gerðar kröfur um styrkingar atvinnuhúsnæðis á þessu svæði, enda ekki um næturgistingu að ræða. Heimild til lækkunar gjaldanna hefur verið nýtt í einstökum tilfellum í byggðakjörnum Ísafjarðarbæjar, svo og við uppbyggingu svokallaðs Tunguhverfis í botni Skutulsfjarðar. Sambærilegt ákvæði er í 7. gr. samþykktar um gatnagerðargjald, stofngjald vatnsveitu og stofngjald holræsa í Ísafjarðarbæ.

Bent er á í minnisblaðinu að verði heimildin nýtt til lækkunar gjalda á einstökum svæðum og/eða með einstökum rökum að gæta skuli jafnræðis, þannig að síðari tíma beiðnir lúti sömu meðferð, eigi sömu rök og aðstæður enn við.

Í minnisblaði sviðsstjóra umhverfis- og eignasviðs kemur fram að álagning á iðnaðarhúsnæði og annað húsnæði er 3,5% af vísitölufm. útgefið af Hagstofu. Til álagningar kæmu í þessu tilviki 9.994 kr.- á hvern byggðan fm., eða byggingarheimild skv. skipulagi og nýtingarhlutfalli.

Í rökstuðningi bæjarráðs segir að það fallist á rök í bréfi Aðstöðunnar sf. að hluta, á þann hátt að bygging fasteignar í Engidal sé á svæði sem hefur sætt lítilli ásókn undanfarin ár, auk þess að vera á hættumatssvæði B, þ.e. fasteign með takmarkaðri viðveru.

DEILA