Ísafjarðarbær: Umgengisreglur í íþróttamannvirkjum til endurskoðunar

Íþróttahúsið á Torfnesi.

Íþrótta- og tómstundanefnd Ísafjarðarbæjar hefur til endurskoðunar umgengisreglur um íþróttamannvirki bæjarins. Var aðildarfélögum HSV gefinn mánuður til að skila inn umsögnum. Alls bárust 2 umsagnir. Eru þær nú til athugunar hjá forstöðumönnum íþróttamannvirkja.

Í umsögn körfuknattsleiksdeild Vestra kemur fram að félagið leggur áherslu á að iðkendur megi nota íþróttasali til æfingar þegar þeir eru ekki í notkun og íþróttahúsið opið, án þess að taka einhvern fullorðinn með sér.
Eru þau á þeirri skoðun að banna eigi áfengi aðeins í íþróttasölum en ekki t.d. á göngum.
Í skipulögðum tímum telja þau að iðkendur eigi að bíða fyrir utan salinn þangað til þjálfari hleypir þeim inn. Ef salurinn er ekki í notkun á opnunartíma íþróttahússins megi þeir fara inn og æfa sig. Aðeins í leigutímum/sölutímum þurfi að gefa upp nafn á ábyrgðarmanni leigutaka. Þetta sé óþarfi þegar kemur að skipulögðu starfi hjá aðildarfélögum HSV.

Aðalstjórn Vestra tekur undir hugmyndir kkd. Vestra og leggur megin áherslu á að iðkendur geti nýtt íþróttasali til æfingar þegar þeir eru ekki í annarri notkun. Nefna þau Bolungarvík sem dæmi en þar mega iðkendur í íþróttafélögum nýta salinn sé hann ekki í notkun.

Ný drög að reglum verða lögð fyrir nefndina á næsta fundi hennar.

DEILA