farþegagjald: reglum breytt til að auðvelda innheimtu

Bæjarstjórn afgreiddi í gær breytingar á reglum um farþegagjald. Breytingarnar skylda skipstjóra, umboðsmann eða eiganda farþegaskips til að afhenda hafnaryfirvöldum upplýsingar um farþegafjölda til innheimtu gjaldsins.

Skipstjórar, umboðsmenn eða eigendur þeirra báta sem stunda reglubundna farþegaflutninga skulu skila upplýsingum um farþegafjölda hverrar ferðar mánaðarlega og skal upplýsingum skilað eigi síðar en 3. hvers mánaðar fyrir næstliðinn mánuð. Skili ofangreindir aðilar ekki upplýsingum um farþegafjölda er heimilt að áætla fjölda farþega fyrir viðkomandi tímabil eða leggja á 25% álag ef skil á farþegatölum dragast umfram 20 daga.

Áður voru engin ákvæði í hafnarreglugerð um farþegagjald um þessi atriði.

Á síðasta ári skiluðu Sjóferðir ehf farþegagjaldi af 7.345 farþegum eftir að hafa fyrst gefið upp að farþegafjöldinn hafi verið 4.940. Framkvæmdastjóri Sjóferða upplýsti í september síðastliðnum að fyrirtækið hefði þá flutt rétt um 15.000 farþega á árinu.

Arna Lára Jónsdóttir, bæjarstjóri sagði í febrúar síðastliðnum aðspurð að „Við höfum ekki forsendur til að draga farþegatölurnar í efa og höfum til þessa treyst ferðaþjónustuaðilum til að standa skil á réttum tölum.“

Farþegagjaldið er 205 kr. fyrir hvern fullorðinn farþega.

DEILA