Arctic Fish: óbreytt seiðaframleiðsla á næstunni þrátt fyrir brunann

Í ársskýrslu Arctic Fish fyrir 2022, sem nýlega var birt kemur fram að bruninn á Tálknafirði í nýbyggingu seiðaeldistöðvarinnar á norður Botni hafi ekki skaðað aðrar byggingar sem fyrir voru og því sé óbreytt áætlun um seiðaframleiðslu þesa árs og því næsta. Hins vegar muni bruninn hafa áhrif á nýbygginguna og seinka því að hún verði tekin í notkun. Hún er vátryggð fyrir bruna. Mat á tjóninu liggur ekki fyrir á þessari stundu.

11.375 tonna lífmassi

Lífmassinn er helsta eign fyrirtækisins og er gerð grein fyrir henni í ársskýrslunni. Alls voru um áramótin 11.375 tonn af fiski í kvíum fyrirtækisins, nánast sama magn og hafði verið áramótin á undan. Verðmæti lífmassans var um 10 milljarðar króna. Nærri helmingurinn var fiskur 4 kg og stærri. Liðlega 40% lífmassans var af stærðinni 1 – 4 kg og aðeins um 7% var fiskur minna en 1 kg.

Arctic Fish hefur leyfi fyrir eldi á 21.800 tonnum af frjóum laxi og 5.300 tonnum af regnbogasilungi. Vænta má þess að lífmassinn muni aukast á næstu árum og samhliða því árlega framleiðsla.

DEILA