73. Fossavatnsgangan hófst í gær

Frá verðlaunaafhendingu í gær. Mynd:Ágúst Atlason.

Keppni hófst í gær í Fossavatnsgöngunni á Ísafirði. Þetta er í 73. sinn sem keppnin fer fram en fyrsta keppnin var 1935. Frá 1955 hefur keppnin verið haldin á hverju ári að undanskildu árinu 2020 þegar keppnin féll niður vegna covid19.

Að þessu sinni eru 601 skráðir til leiks þar af fjölmargir erlendir keppendur. Kristbjörn Sigurjónsson, forsvarsmaður Fossavatnsgöngunnar sagðist vera ánægður með þátttökuna og sagði veðrið hafa leikið við keppendur í gær.

Keppt var í 1 km og 5 km fjölskyldugöngu og 25 km göngu með frjálsri aðferð. Um 230 keppendur voru skráðir í þær greinar. Meðal keppenda í 25 göngunni var Konráð Eggertsson, Ísafirði sem fyrr á árinu varð áttræður.

Snorri Einarsson kom fyrstur í mark í karlaflokki og hin svissneska Nadja Kälin í kvennaflokki í 25 km Fossavatnsskautinu. Svisslendingurinn Ilya Chernusov varð í öðru sæti í karlaflokki og Norðmaðurinn Mathias Aas Rolid í þriðja, rúmum tveimur mínútum á eftir fyrsta manni. Ekki langt á eftir þeim komu Petter Soleng Skinstad og Robin Frommelt.Í kvennaflokkinum vann sem fyrr segir Nadja Kälin, Andrea Kolbeinsdóttir önnur og Ísfirðingurinn Dagný Emma Kristinsdóttir þriðja.

Í kvennaflokki í 5 km göngunni sigraði María Sif Hlynsdóttir, Sölvey Marie Tómasdóttir var önnur og Hekla Malín Ellertsdóttir þriðja.Matthías Karl Ólafsson sigraði í 5 km göngu karla, Arnar Gauti Gíslason var annar og Magnús Hrafn Einarsson þriðji.

Á morgun, laugardag verður keppt í 50 km göngu, hinnu eiginlegu Fossavatnsgöngu. Skráður er 331 keppandi.

Uppfært kl 13:04. Konráð Eggertsson mun taka þátt í 25 km göngunni sem fram fer á morgun, laugardag, en var ekki í 25 km skaut göngunni í gær. Það leiðréttist hér. Það verður í 30. sinn sem Konráð tekur þátt í Fossavatnsgöngunni.

Kort af gönguleiðinni.
Frá Fossavatnsgöngunni í fyrra. Mynd: Ágúst Atlason.

DEILA