Vinstri grænir: kílómetragjald af umferð og staðbundin gjaldtaka

Sundabraut fellur væntanlega undir staðbundna gjaldtöku í ályktunardrögunum.

Í drögum að ályktunum fyrir komandi landsfund Vinstri grænna segir um gjaldtöku af umferð, stýringu umferðar og grænar lausnir í samgöngumálum að:

„Landsfundur Vinstrihreyfingarinnar – græns framboðs haldinn 17. – 19. mars 2023 áréttar nauðsyn þess að móta heildstæða stefnu til framtíðar um gjaldtöku af umferð sem taki mið af breyttum aðstæðum og óumflýjanlegum, fullum orkuskiptum í samgöngum. Fundurinn telur eðlilegast að notendagjöld, þ.e. eknir kílómetrar að teknu tilliti til gerðar ökutækja og hvar og hvenær þeim er ekið o.s.frv. leysi af hólmi hverfandi tekjustofna í formi bensín- og olíugjalda.
Staðbundin gjaldtaka í þágu byggingar einstakra kostnaðarsamra mannvirkja, sem og svæðisbundin gjaldtaka til þess að stýra umferð og efla almenningssamgöngur, þarf ásamt hinni almennu gjaldtöku að mynda saman heildstætt kerfi. Fundurinn telur eðlilegt að sú umferð sem nýtur góðs af stökum dýrum mannvirkjum sem fjármögnuð eru með
staðbundinni viðbótargjaldtöku greiði áfram lágt gjald sem dugi til viðhalds og rekstrar eftir að stofnkostnaður hefur verið greiddur eins og er vel þekkt í nágrannalöndunum.“

DEILA