Jöfnunarsjóður sveitarfélaga greiði sérstakt höfuðstaðarálag

Gagngerar breytingar verða gerðar á regluverki Jöfnunarsjóðs sveitarfélaga samkvæmt tillögum sem birtar hafa verið í samráðsgátt stjórnvalda. Breytingarnar miða að því að styrkja jöfnunarhlutverk sjóðsins og mæta miklum breytingum sem hafa orðið í samfélaginu segir í tilkynningu frá Innviðaráðuneytinu.

Hlutverk Jöfnunarsjóðs sveitarfélaga er að jafna mismunandi útgjaldaþörf og skatttekjur sveitarfélaga með framlögum úr sjóðnum. Tilgangurinn er að sveitarfélögin standi á jafnari grunni, að teknu tilliti til land- og lýðfræðilegra þátta auk fjárhagslegs styrks, til að sinna lögbundnum verkefnum. Síðustu ár hafa framlög úr Jöfnunarsjóði vegið um 13% af samanlögðum heildartekjum sveitarfélaga.

Lagt er til að taka upp nýtt líkan sem leysi núverandi tekjujöfnunar-, útgjaldajöfnunar- og fasteignaskattsframlög af hólmi. Um yrði að ræða gagnsætt líkan sem sameinar fyrrgreind framlög í eitt framlag. 

Starfshópur sem vann tillögurnar var sammála um eftirfarandi breytingar á jöfnunarkerfinu:

  1. Nýtt jöfnunarframlag. Lagt er til að verði veitt vegna sérstakra áskorana sem skiptist í:
    Framlag vegna sérstaks byggðastuðnings. Ekki er útlistað hvernig þessi stuðningur er fundinn, en til þessa framlags er gert ráð fyrir 161 m.kr. á næsta ári, 322 m.kr. árið 2025 og 483 m.kr. á árinu 2026.
    Framlag til sveitarfélaga með sérstakt höfuðstaðarálag. Starfshópurinn telur að álagið muni einkum eiga við um Reykjavík og Akureyri , með öðrum orðum er lagt til að Jöfnunarsjóðurinn taki upp styrkveitingu til þeirra sveitarfélaga vegna þess að þau veiti þjónustu sem önnur sveitarfélög veiti í minna mæli. Samkvæmt tillögum starfshópsins yrði framlagið á næsta ári 271 m.kr., hækkaði í 474 m.kr. á árinu 2025 og færi upp í 677 m.kr. árið 2026.
  2. Breytingar á framlögum vegna íslensku sem annað tungumál. Lagt er til að Reykjavíkurborg fá greidd framlög vegna kennslu nemenda með íslensku sem annað tungumál.
  3. Vannýting útsvars dregin frá framlögum. Starfshópurinn leggur til að nýti sveitarfélag ekki útsvarshlutfall að fullu komi til skerðingar á framlögum úr Jöfnunarsjóði sem nemi vannýttum útsvarstekjum, þ.e. mismuni á útsvari miðað við hámarksálagningu og útsvari miðað við álagningarhlutfall sveitarfélags.

Starfshópurinn leggur til að nýtt líkan jöfnunarframlaga verði innleitt í skrefum á fjögurra ára tímabili til að stuðla megi að fyrirsjáanleika í rekstri sveitarfélaga.

Í starfshópnum voru:

Aðalsteinn Þorsteinsson, fomaður, skrifstofustjóri í Innviðaráðuneytinu

Kristinn Jónasson, bæjarstjóri Snæfellsbæ

Erik Tryggvi Striz Bjarnason, skrifstofustjóri Reykjavíkurborg

DEILA