Merkir Íslendingar – Ásthildur Ólafsdóttir

Ásthildur Ólafsdóttir fæddist í Hafnarfirði þann 3. febrúar 1933.

Foreldrar hennar voru  Ólafur Þ. Kristjánsson skólastjóri (1903-1981) og Ragnhildur Gísla Gísladóttir (1904-1996). Systkini: Kristján Bersi (1938-2013) og Ingileif Steinunn (1939).

Eiginmaður Ásthildar var Hörður Zóphaníasson skólastjóri (1931-2015).

Börn Harðar og Ásthildar:

1) Ólafur Þ. (1951),

 2) Sigrún Ágústa (1952),

3) Tryggvi (1954),

4) Ragnhildur Gísla (1955),

5) Elín Soffía (1958),

6) Kristín Bessa (1963),

7) Guðrún (1966)

Ásthildur stundaði nám við Kennaraskóla Íslands en lauk ekki námi vegna barneigna. Hún var lengi heimavinnandi húsmóðir, en skólaritari í Víðistaðaskóla frá 1970 í áratugi.

Ásthildur bjó alla ævi í Hafnarfirði, nema hvað hún bjó á Þrastarhóli í Hörgárdal 1954-5, á Hjalteyri 1955-8, í Ólafsvík 1958-60 og í Kaupmannahöfn 1968-9.

 Í æsku dvaldi hún 11 sumur og einn vetur á Kirkjubóli í Bjarnardal í Önundarfirði hjá ömmu sinni, Bessabe Halldórsdóttur og föðursystkinum, Guðmundi Inga, skáldi, Jóhönnu og Halldóri. Þar voru bækur og bókmenntir í hávegum – flestir voru annaðhvort skáld eða hagyrðingar. Búskaparhættir voru fornir og búið í torfbæ. Á Kirkjubóli var síðast fært frá á Íslandi – og hún hafði gaman af að rifja upp þegar hún sat yfir ánum frammi á dal. Heiðarleiki, réttsýni og jafnrétti voru gildi sem henni voru innrætt bæði á Kirkjubóli og í foreldrahúsum.

Ásthildur sinnti margvíslegum félagsstörfum, einkum eftir að börnin komust á legg. Hún starfaði í Alþýðuflokki og Samfylkingu, skátahreyfingunni, vann að skógrækt og var mikil kvenréttindakona. M.a. flutti hún ræðu á Lækjartorgi á Kvennafrídaginn 1975.

Áratugum saman komu hjónin Ásthildur og Hörður fram á samkomum fjölmargra félaga – dagskráin var oft blanda af texta og ljóðum góðskálda, stundum gamanefni.

Ásthildur Ólafsdóttir  andaðist á Sólvangi í Hafnarfirði þann 11. febrúar 2018.

Ásthildur Ólafsdóttir á Kvennafrídeginum 1975 á Lækjartorgi

DEILA