Landsréttur: Ísafjarðarbær sýknaður af kröfu um bætur vegna uppsagnar

Á föstudaginn var kveðinn upp dómur í Landsrétti í máli sem fyrrverandi bæjarverkstjóri höfðaði gegn Ísafjarðarbæ vegna uppsagnar árið 2020. Héraðsdómur Vestfjarða sýknaði Ísafjarðarbæ í október 2021 og var málinu áfrýjað til Landsréttar. Landsréttur staðfesti dóm Héraðsdóm Vestfjarða en felldi niður málskostnað.

Krafist var skaðabóta sem nema launum í 60 mánuði eða samtals 64 m.kr. og miskabóta 2 m.kr. Báðum kröfunum var hafnað.

Tildrög uppsagnarinnar voru áform sveitarfélagsins um að lækka launakostnað og stuðst var við skýrslu HLH ráðgjafar ehf þar sem meðal annarra tillagna var niðurlagning starfs yfirmanns eignasjóðs sem stefnandi gegndi og það sameinað starfi umsjónarmanns Fasteigna Ísafjarðarbæjar ehf. Taldi stefnandi að ýmis ákvæði stjórnsýsluréttar hefðu verið brotin og einnig að bæjarstjórn hefði átt að taka slíka ákvörðun en ekki bæjarstjóri.

Fyrir héraðsdóm voru lagðar fram skýrslur bæjarstjóra um forsendur ákvörðunar sinnar og um undirbúning hennar. Telur Landsréttur að „niðurstaða bæjarstjóra hafi verið reist á viðhlítandi rannsókn á þeim valkostum sem til staðar voru í því augnamiði að ná fram tiltekinni hagræðingu í rekstri stefnda.“ Fjárhagslega markmiðið hafi verið lögmætt og að ekki hafi verið brotið gegn ákvæðum stjórnsýsluréttar. Þá hafi bæjarstjóri samkvæmt sveitarfstjórnarlögum og bæjarmálasamþykkt heimild til þess veita fólki lausn frá störfum.

DEILA