Minning: síra Einar Guðni Jónsson

f. 13. apríl 1941- d. 4. apríl 2020.

Jarðsunginn frá Fossvogskapellu 16. apríl 2020.

Langafi sr. Einars var Jón háyfirdómari, sonur þess góðfræga prófasts sr. Péturs á Víðivöllum Péturssonar og konu hans frú Þóru Brynjólfsdóttur gullsmiðs Halldórssonar biskups á Hólum Brynjólfssonar. Kona háyfirdómarans var Jóhanna Soffía Bogadóttir stúdents og fræðimanns á Staðarfelli höfundar Sýslumannaæva ættföður Staðarfellsættar. Háyfirdómarinn var bróðir Brynjólfs Fjölnismanns og Péturs biskups en faðir sr. Péturs á Kálfafellsstað föður sr. Jóns, föður sr. Einars. Tvíburabróðir sr. Péturs á Kálfafellsstað var sr. Brynjólfur á Ólafsvöllum á Skeiðum.

Frú Þóra móðir sr. Einars var dóttir Einars verkstjóra Jónssonar á Akranesi og Guðbjargar Kristjánsdóttur frá Bár í Eyrarsveit. Jón föðurafi frú Þóru var bróðir sr. Hjörleifs á Undornfelli Einarssonar föður Einars H. Kvaran rithöfundar. Móðir Jóns var Þóra Jónsdóttir Schjöld bónda á Kórreksstöðum Þorsteinssonar ættföður Vefaraættarinnar sem rakin verður til sr. Hjörleifs prófasts Þórðarsonar á Valþjófsstað.

Sú hneigð í fari sr. Einars og gætti frá unglingsárum var löngun til að leika á hljóðfæri, teikna og mála. Hann var í prédikun sinni ljós og gagnorður án orðaprjáls og tilgerðar. Meðfram stundaði hann kennslustörf og var ástsæll meðal nemenda svo ríkulega sem hann var búinn spauggreind og fullkomlega laus við smámunasemi.

Það er varla að taka of djúpt í árinni þótt sagt sé, að alla ævi hafi músík verið líf hans og yndi. Ungur lærði hann á píanó og efldi með sér tónlistarskyn. Bar frá hve leikinn hann var að spila eftir eyranu sem kallað er; þar voru ekki á ferð nein vinnukonugrip eða klökkir hljómar heldur ævinlega þeir kórréttu. Var unun að horfa á sr. Einar við hljóðfærið; hann hafði slíka ánægju af íþróttinni að hann brosti með öllu andlitinu.

Sr. Einar hélt fast við þann sið gömlu prestanna að taka hús hver á öðrum þegar þeir voru á ferðinni, þiggja beina, dveljast nætursakir. Þau frú Sigrún voru líka að sínu leyti viðbrigða gestrisin. Hann var ekki skrafinn og fyrirleit slúður. En hann var eldfljótur að taka við sér í ávarpi og var þó stundum hlustandi að hófi; ef til vill var hann uppgefinn á tali í fólki og kann að hafa verið orsök þess að það fór stundum að ymja í honum á meðan misvitrir viðmælendur létu dæluna ganga.

Frændrækinn var sr. Einar og svo frábærlega sinnti hann frú Betu móðursystur sinni að sjaldgæft er; óþreytandi að vitja hennar og voru þeir dagar færri að hann næði ekki fundi þeirra sr. Fjalars eða hefði tal af öðru hvoru þeirra hjóna og ekki síður eftir að frú Beta lagðist veik á spítala.

Þótt sr. Einar nyti sín uppi á pallinum var hann frábitinn því að trana sér fram. Oft fór hann með latneskt máltæki við mig: Bene vixit, qui bene latuit (sá lifði vel sem leyndist). Hann var ljúfmenni og ég hygg að hann hafi „viljað að allir færu fegnir af hans fundi“ eins og Eysteinn konungur forðum. Hafi hann þökk og veri kært kvaddur. Ástvinum innileg samúð. Guð blessi minningu góðs drengs.

Gunnar Björnsson,

pastor emeritus.

DEILA