Listasafn Ísafjarðar: á víð og dreif

Verkið Morgunstund eftir Kristján Davíðsson.

Listasafn Ísafjarðar býður gesti velkomna á opnun sýningarinnar Á VÍÐ OG DREIF föstudaginn 20. janúar kl.16.00 í sal Listasafns Ísafjarðar á annari hæð í Safnahúsinu Eyrartúni. Boðið verður upp á léttar veitingar.

Listasafn Ísafjarðar býr yfir ágætri safneign sem telur um 180 verk. Hluti af verkunum má víða sjá prýða veggi í opinberum byggingum Ísafjarðarbæjar. Verkin hafa hangið á sínum stöðum í tugi ára og mörg hver lent í gini hversdagsins og horfið inn í undirmeðvitund almennings. Á þessari fyrstu sýningu ársins 2023 verða nokkur af verkunum færð í sviðsljósið á sýningu í sal Listasafnsins. Sýningin er áminning um að líta upp úr amstri hversdagsins og njóta þess sem við eigum.

Valin voru 6 málverk eftir 4 þjóðþekkta listamenn síðustu aldar; Jóhannes S. Kjarval, Karl Kvaran, Kristján Davíðsson og Nínu Tryggvadóttur ásamt einum skúlptúr eftir hugmyndalistamanninn Kristján Guðmundsson. Innbyrðis eru listamennirnir ólíkir en samtenging verkanna er óhlutbundin myndbygging þar sem skúlptúr Kristjáns Guðmundssonar myndar brú frá liðnum tíma inn í samtímann. 

DEILA