Áramótaannáll Galdrasýningar

Strandir gegn stríði. Myndir: Galdrasýningin.

Árið 2022 var árið sem við kvöddum þær takmarkanir sem Covid hefur sett okkur og fjöldi gesta á Galdrasýninguna er kominn í svipaðar tölur og var fyrir faraldurinn eða um 16.300 manns og hlutfall milli erlendra og innlendra ferðamanna 78% erlendir og 22% innlendir. Árið byrjaði eins og svo oft með slæmu vetrarveðri þar sem hver lægðin á fætur annarri reið yfir landið sem hafði auðvitað áhrif á fjölda gesta. Þrátt fyrir það höldum við viðteknum hætti að hafa opið allt árið.

Í mars hélt Galdrasýningin söfnun í samstarfi við Rauða Krossinn og fjölda aðila á svæðinu til styrktar Úkraínu og var þátttaka fram úr væntingum og safnaðist 500 þúsund krónur og Rauði krossinn á Hólmavík lagði jafn mikið fram, svo í allt safnaðist 1 milljón.

Strandir gegn stríði.

Í mars fékk Galdrasýningin styrk úr sjóðnum Sterkar Strandir í verkefni um að setja upp sýningu um galdrastafi í húðflúrum. Tafir hafa orðið á verkefninu en sýningin verður sett upp í fyrri hluta þessa árs. Sumarið var líka notað í áframhaldandi viðhaldsvinnu á húsnæðinu á Hólmavík þar sem sett var klæðning og einangrun á eina hlið hússins sem snýr að Höfðagötunni, í framhaldi af þakskiptum á árinu áður, og því verki er næstum því lokið í lok árs, smávegis frágangur eftir.

Framkvæmdir á húsnæði Galdrasýningar.
Klæðning sett á Galdrasýningu.

Sumarið 2022 var einnig klárað að lagfæra Kotbýli kuklarans á Klúku í Bjarnarfirði og sýningin þar sett upp aftur, þar fengum við ljósahönnuðinn Egil Ingibergsson okkur til aðstoðar. Galdrasýningin tók átt í vetrarhátíðum á Ströndum, Vetrarsól og Hörmungadögum, með viðburðum. Á bæjarhátíðinni Hamingjudagar á Hólmavík var spilað Quittich eins og hefð er orðin fyrir þar sem börn og fullorðnir tóku virkan þátt í þessum galdrandi leik.

Listir og menning setti sitt mark á árið hjá Galdrasýningunni, þar sem það voru þrír listamenn sem settu upp verk sín í húsnæði Galdrasýningarinnar yfir sumartímabilið. Þar af voru tveir sem voru hluti af sýningunni Nr 4 Umhverfing sem var haldin um alla Vestfirði og Dali, en það voru Freyja Eilíf og Anton Logi Ólafsson. Að auki var Sara Jóhannsdóttir með bráðskemmtilegar kolateikningar til sýnis í matsal Kaffi Galdurs en hún er fædd og uppalin á Hólmavík.

Verk eftir Söru Jóhannsdóttur.

Margir listamenn hafa í gegnum tíðina sótt innblástur í umfjöllunarefni Galdasýningarinnar og þetta árið fengum við að gjöf afrakstur frá tveimur listamönnum. Rithöfundurinn A. Kendra Green heimsótti okkur til að færa okkur eintak af bók sinni The museum of whales you will never see þar sem einn kafli er tileinkaður Galdrasýningunni og í lok árs kom listamaðurinn Jesse Brandsford og færði okkur eintak af bókinni The book staves sem var að hluta innblásin af bókum sem Galdrasýningin hefur gefið út.

A. Kendra Green.

Þær ánægjulegu breytingar urðu í Árneshreppi að Guðjón Kristinsson frá Dröngum eignaðist jörðina Stóru-Ávík í Trékyllisvík og um haustið lagði hann veglegan göngustíg frá veginum að aftökustaðnum Kistunni. Áður hafði Valgeir Benediktsson í Árnesi sett upp glæsilegt skilti við veginn, þar sem göngustígurinn hefst. Þetta er allt mjög ánægjulegt, að þessi merki sögustaður verði aðgengilegri. Eins var undir lok ársins samstarf við Galdur Brugghús á Hólmavík um textagerð og hugmyndavinnu í sambandi við tengingu nýja brugghússins við galdrana og ímynd svæðisins.

Skilti um Kistuvog í Stóru Ávík.

Strandagaldur fékk góðan stuðning frá Uppbyggingasjóði Vestfjarða á árinu 2022, einnig frá sveitarfélaginu Strandabyggð. Síðustu ár hafa þessir aðilar stutt dyggilega við bakið á starfseminni, bæði í orði og á borði, og sá stuðningur verið mjög mikilvægur fyrir starfsemina. Eins hefur frumkvæðissjóður Sterkra Stranda stutt við tvö verkefni hjá Strandagaldri á síðustu árum. Framkvæmdasjóður ferðamannastaða studdi okkur einnig veglega við endurbætur á Kotbýlinu. Öllum þessum aðilum þökkum við kærlega fyrir allt gamalt og gott.

Anna Björg Þórarinsdóttir

framkvæmdastjóri Strandagaldurs

DEILA