Myndir og minningar af Ströndum

Bókin Myndir og minningar af Ströndum kemur úr prentsmiðjunni í þessari viku. Ákveðið hefur verið að bjóða aðstandendum, höfundum og öllu öðru Strandafólki, nærsveitungum og vinum í opið útgáfuteiti á Sauðfjársetrinu í Sævangi þann 10. desember. Þar verður útgáfunni fagnað og boðið upp á léttar veitingar. Gleðin hefst kl. 16.

Bókin er gefin út í tilefni af 20 ára afmæli Sauðfjársetursins. Yfir 40 einstaklingar skrifa í bókina og fjalla um lífið á Ströndum, frá ólíkum sjónarhornum og hver með sinni rödd. Með hverri grein hafa höfundar valið ljósmynd sem þeim þykir vænt um og þau skrifa út frá. Í bókinni er að finna skemmtilegar og fjölbreyttar frásagnir Strandafólks sem bregða upp svipmyndum frá síðustu öld. Daglegt líf, eftirminnilegar persónur og einstakir viðburðir eru rifjaðir upp. Sögur, ljóð og vísur fá að fljóta með, enda er sagnamennska íbúum Stranda í blóð borin.

Útgefendur eru Sauðfjársetur á Ströndum og Rannsóknasetur Háskóla Íslands á Ströndum – Þjóðfræðistofa. Þetta er þriðja bókin sem þessar menningarstofnanir hafa samvinnu um að gefa út á jafn mörgum árum. Áður hafa komið út bækurnar Strandir 1918, sem er uppseld í augnablikinu, en verður endurútgefin, og Álagablettir á Ströndum sem kom út í fyrra. Frekari bókaútgáfa er á teikniborðinu, enda hefur allt gengið að óskum hingað til.

Sauðfjársetrið vill þakka öllu því góða fólki sem kom að þessu verkefni. Höfundarnir eiga hrós skilið og sérstakar þakkir fá þjóðfræðingarnir Dagrún Ósk Jónsdóttir, Eiríkur Valdimarsson og Jón Jónsson sem voru í ritstjórn. Eins fær Nina Ivanova bestu þakkir fyrir umbrot og hönnun og Gunnar B. Meldsted fyrir prófarkalestur. Eins viljum við þakka Delphine í Árneshreppi fyrir alla hennar góðu hjálp við að safna efni, hún var svo sannarlega vel þegin.

Fyrir þau sem ekki komast í útgáfuhófið er bent á að hægt er að panta bókina og fá heimsenda á saudfjarsetur@saudfjarsetur.is, í síma 693-3474 (Ester), með einkaskilaboðum á Facebook-síðu Sauðfjársetursins og einnig á sérstakri pöntunarsíðu.

DEILA