Merkir Íslendingar – Guðbjarni Jóhannsson

Guðbjarni Jóhannsson fæddist í Djúpuvík á Ströndum þann 1. desember 1942.

Foreldrar hans voru Guðrún Guðbjarnadóttir frá Jafnaskarði í Borgarfirði, f. 1911, d. 2000, og Jóhann Ingibjartur Guðbjartsson frá Flateyri, f. 1907, d. 1998.

Guðbjarni bjó fyrstu æviárin í Djúpuvík og fluttist með foreldrum sínum og systkinum til Flateyrar 1949.

Systkini Guðbjarna eru:
Svanur, f. 1935, d. 2019

Anna, f. 1937,

Guðbjartur, f. 1946, d. 1949,

og Þorsteinn, f. 1952.

Eiginkona Guðbjarna er Bára Guðjónsdóttir, f. 23.2. 1943. Þau giftust 13. nóvember 1971.

Börn þeirra eru:

1) Jóhann Rúnar, f. 15.12. 1965,

2) Guðrún, f. 27.7. 1971.

Guðbjarni Jóhannsson lauk barnaskóla á Flateyri og fór þaðan til náms í Reykjanes við Ísafjarðardjúp og að Reykjum í Hrútafirði.

Guðbjarni hóf nám í trésmíði 16 ára gamall hjá föðurbróður sínum Jóni Guðbjartssyni á trésmíðaverkstæðinu Hefli á Flateyri. Að loknu sveinsprófi vann hann við iðn sína og fór í Meistaraskólann í Reykjavík 1964.

Í höfuðborginni kynntist Guðbjarni Báru og byrjuðu þau að búa þar en fluttust vestur til Flateyrar vorið 1966 og hélt hann áfram að starfa hjá Hefli.

Guðbjarni var hann virkur í félagsmálum á Flateyri; var t.d. einn af stofnendum Lions-klúbbsins ásamt því að taka að sér starf sveitarstjóra í eitt ár 1973-1974.

Árið 1974 fluttist Guðbjarni ásamt fjölskyldu sinni til Akraness og fyrsta starf hans þar var að stýra byggingu Akraborgarbryggjunnar á vegum Akraneskaupstaðar en síðar var hann sjálfstætt starfandi.

Um 1980 reisti Guðbjarni; ásamt félögum sínum Dóra og Nanna, dælustöðvar fyrir Hitaveitu Akraness og Borgarfjarðar.

Árið 1982 fór Guðbjarni til sjós, fyrst á Heimaey VE og síðar á Víking AK. Á milli vertíða starfaði hann við trésmíðar allt til ársins 2001 er hann sneri sér alfarið að iðn sinni á ný.

Haustið 2007 hóf Guðbjarni störf sem kennari við tréiðnaðardeild Fjölbrautarskóla Vesturlands á Akranesi og kenndi þar til veikindi hans gerðu honum það ekki lengur kleift í október 2009.

Guðbjarni Jóhannsson lést á Landspítalanum þann 11. janúar 2010.

Útför Guðbjarna fór fram frá Akraneskirkju 19. janúar 2010.

Guðbjarni Jóhannsson var einn þeirra 10 Önfirðinga sem voru heiðraður á Önfisrku bítlavökunni að Efstalandi í Ölfusi haustið 1990.
Efri röð f.v.: Sara Vilbergsdóttir, Ólafur Ragnarsson, Björn E. Hafberg, Guðbjarni Jóhannsson, Ólafur R. Jónsson.  Neðri röð f.v; Guðbergur Guðnason, Magnús Th. Benediktsson, Gunnar Ásg. Benediktsson, Guðbjartur Jónsson og Guðmundur B. Haraldsson.

DEILA