Ísafjörður: Jóli Hólm í Hömrum 11. desember

Sóli Hólm og Halldór Smárason verða í Hömrum 11. desember kl. 20.30 með sýninguna Jóli Hólm sem gengur nú fyrir fullu húsi í Bæjarbíó í Hafnarfirði.

Skemmtikrafturinn og eftirherman Sóli Hólm hefur síðustu ár lagt sitt af mörkum til að létta lund landsmanna með eftirhermum, gríni og söng.

„Þegar ég réði Halldór í starf tónlistarstjóra setti hann það sem skilyrði að fara vestur með sýninguna. Það var mér ljúft og skylt að verða við þessari ósk, sérstaklega eftir að ég fór með sýninguna mína Loksins eftirhermur á Ísafjörð í lok október. Stemningin þá var geggjuð,“ segir Sóli Hólm.

Þúsundir hafa sótt uppistandssýningar Sóla og færri komist að en vilja.

Halldór Smárason er Ísfirðingur og Grunnvíkingur og ætti því að vera Vestfirðingum af góðu kunnur. „Ég er fullur tilhlökkunar að koma heim til Ísafjarðar og er sannfærður um að sýningin mun falla vel í kramið hjá mínu heimafólki,“ segir Halldór.

Miða þarf að nálgast á https://tix.is/is/event/14523/joli-holm-a-isafir-i/ og er miðaverð það sama og í Bæjarbíói, 7.990 kr.

DEILA