Merkir Íslendingar – Pétur Geir Helgason

Pétur Geir Helgason fæddist í Álftafirði við Ísafjarðardjúp þann 15. nóvember 1932.

Hann var sonur hjónanna Helga Benediktssonar, f. 29. október 1893, d. 12. des 1975, og Jónínu Pétursdóttur, f. 11. júní 1905, d. 31. mars 1985.

Systkini Péturs Geirs voru:

Benedikt Helgason, f. 1923,  Guðmundur Helgason, f. 1925,  Birna Benjamínsdóttir, f. 1927, Guðmundur Helgason, f. 1929,  Lúðvíg Helgason, f. 1936 og Sigríður Helgadóttir, f. 194.

Guðmunda Jóna Pétursdóttir, f. 5. apríl 1901, d. 23. janúar 1993, móðursystir Péturs Geirs, tók hann í fóstur þegar hann var fjögurra mánaða gamall og ól hann upp, fyrst með Pétri Janusi Oddssyni, f. 10. janúar 1902, d. 27. október 1976, en ein eftir að þau skildu. Fyrir átti Guðmunda Jóna dótturina Fanneyju Halldórsdóttur, f. 26. febrúar 1924, d. 5. október 2008, og leit Pétur Geir alla tíð á hana sem systur sína.

Pétur Geir kvæntist árið 1952 Ósk Norðfjörð Óskarsdóttur, f. 9. júní 1934, d. 30. janúar 2008, frá Hrísey.

Börn þeirra eru:

1) Óskar Geir, f. 1. september 1952.

2) Rúnar Þór, f. 21. september 1953.

3) Guðmunda Jóna, f. 13. september 1958.

4) Heimir Már, f. 20. maí 1962.

Pétur Geir og Ósk ólu einnig upp að mestu dótturdóttur sína Ósk Norðfjörð yngri.

Pétur Geir og Ósk bjuggu fyrstu tuttugu og þrjú búskaparár sín á Ísafirði, lengst af á Seljalandsvegi 30 sem þau byggðu og fluttu inn í árið 1961.

Árið 1976 fluttu þau til Reykjavíkur þar sem þau bjuggu í eitt ár áður en þau fluttu til Kópaskers þar sem þau bjuggu í þrjú ár áður en þau fluttu aftur til Ísfjarðar. Þar voru þau fram til ársins 1988 þegar þau fluttu á Árskógsströnd í eitt ár en bjuggu eftir það jöfnum höndum á Akureyri og Kópaskeri til ársins 2007.

Það var vinnan sem réð flutningum þeirra. Pétur Geir var lengst af sjómaður og útgerðarmaður á Ísafirði, var bæði með vélstjórapróf og skipstjórnarpróf og þá lærði hann niðursuðu ungur að árum í París.

Í nokkur ár var Pétur yfirfiskmatsmaður hjá Fiskmati ríkisins.

Pétur Geir var verkstjóri í rækjuverksmiðju á Kópaskeri í þrjú ár og forstjóri rækjuverksmiðju á Árskógsströnd í um þrjú ár. Eftir það stundaði hann trilluútgerð á sumrin frá Kópaskeri fram til ársins 2002 þegar hann og Ósk seldu sumarhús sitt þar.

Haustið 2007 fluttu Pétur Geir og Ósk til Reykjavíkur þar sem hún lést síðan hinn 30. janúar 2008. Eftir það bjó Pétur Geir einn en síðustu mánuðina var hann á Landakoti, Vífilsstöðum og loks Droplaugarstöðum þar sem hann lést.

Pétur Geir Helgason lést í Reykjavík þann 21. maí 2021.

Útförin fór fram frá Neskirkju í Reykjavík þann 31. maí 2021.

Menningar Bakki.

DEILA