Þingeyri: heimsfrumsýning á myndinni Sumarljós

Heimsfrumsýning fór fram á Vestfjörðum á fimmtudag, þegar kvikmyndin Sumarljós og svo kemur nóttin var sýnd í félagsheimilinu á Þingeyri. Um var að ræða sérstaka boðssýningu fyrir þau sem léku í og störfuðu við kvikmyndatökurnar en þær fóru allar fram í Dýrafirði fyrir tveimur árum. Elfar Aðalsteins skrifaði handritið og leikstýrði, en myndin er byggð á samnefndri skáldsögu eftir Jón Kalman Stefánsson.

Fjölmörgum Vestfirðingum bregður fyrir í myndinni ásamt þekktum leikurum á borð við Ólaf Darra Ólafsson, Heiðu Reed, Þorsteini Bachman og Svandísi Dóru Einarsdóttur. Stórt leikaralið er í myndinni sem segir nokkrar sögur í senn, sem allar tengjast litlu, ónefndu þorpi úti á landi en Vestfirðingar þekkja landslagið þó um leið, fagra Dýrafjörð og fallegu húsin á Þingeyri.

Elfar leikstjóri tók á móti boðsgestum í félagsheimilinu og sagði að með þessari leynilegu forsýningu vildi hann þakka þeim sem hjálpuðu til við að gera myndina að veruleika. Nokkur fjöldi fólks fékk því þarna að berja myndina augum á undan öðrum Íslendingum en Sumarljós og svo kemur nóttin var lokamynd á RIFF hátíðinni og frumsýnd þar á laugardag en fer í almennar sýningar í bíóhúsum 14. október.

Áhorfendur á Þingeyri létu vel af myndinni og þótti hún hin besta skemmtun, en hvort þeir geti talist hlutlausir er annað mál og því um að gera að sem flest drífi sig í bíó og dæmi hvert fyrir sig.

Á myndunum má sjá Elfar leikstjóra með Katrínu og Vagnfríði Elsu sem léku dætur persónu Ólafs Darra og Elfar leikstjóra að ávarpa gesti fyrir sýningu fyrir nær fullu húsi í félagsheimilinu.

Myndir: aðsendar.

DEILA