Nokkur orð um stöðvun framkvæmda Skógræktarfélags Patreksfjarðar

Úlfar Thoroddsen.

Nú hefur bæjarráð Vesturbyggðar sett skilyrði fyrir framkvæmdum Skógræktarfélags Patreksfjarðar, eins og fram kemur í frétt BB 7. október 2022.

Áður hafði það gerst að Inga Hlín Valdimarsdóttir safnstjóri Minjasafns Egils Ólafssonar gerði fyrirspurn til bæjarstjórnar um athafnir skógræktarfélagsins í Litladal. Taldi hún að fornminjar hefðu farið forgörðum og ályktar um hugarfar fulltrúa skógræktarfélagsins.

Skipulagsfulltrúi Vesturbyggðar brást snarlega við og fyrirskipaði stöðvun framkvæmda án þess að kanna aðstæður eða hafa samband við fulltrúa skógræktarfélagsins. Byggði hann aðeins á því að hugsanlega væri verið  að spilla fornminjum.

Síðan var minjavörður frá Minjastofnun kallaður til 7. september til að líta á aðstæður. Fór ritari þessarar greinar á svæðið með honum ásamt Óskari eiginmanni safnstjóra og kornungu barni þeirra.

Ég fulltrúi skógræktarfélagsins var ekki sammála minjaverði og eiginmanni safnstjóra um það að fornminjar hefðu spillst því að ekkert segði eða sannaði að grafningur,  upphaflega markaður af búpeningi allt frá landnámi og  sí útskolaður af árlegum vatnságangi í vorleysingum,   væri síðan hluti markaðrar fornrar leiðar milli Patreksfjarðar og Tálknafjarðar fremur en annar slóði, sem væri öllu líklegri í því samhengi. Á þau rök hlustuðu hinir fornminjamenntuðu ekki og héldu fast við sinn skilning á aðstæðum og vísuðu í lagagreina.

Bæjarráðið tekur síðan afstöðu í málinu byggða á umsögn minjavarðar svo sem fram kemur í fyrrgreindri frétt 7. október.

Nú er það svo að Patrekshreppur úthlutaði Skógræktarfélagi Íslands þetta land til skógræktar árið 1990. Það var ljóst frá upphafi að gera þyrfti akfæran slóða umhverfis dalbotn Litladals til að koma að plöntum og áburði og öðru efni. Það leyfi var gefið á sínum tíma og öllum viðkomandi ljóst hvernig að því yrði staðið. Upp úr miðjum tíunda áratugi síðustu aldar var ráðist í þá slóðalagningu. En hvorki tókst að ljúka verkinu þá né snyrta slóðann og fegra ásýndina sökum fjárskorts. Það var fyrst á þessu sumri 2022 að hillti undir það að halda áfam að framkvæma það sem áformað var í upphafi, snyrtilegan, akfæran vegarslóða umhverfis dalinn sem á að vera flestum fær. Djúpir og ójafnir grafningar  eru of mörgum hindrun. Flestir, laust við færni til göngu í ójöfnu landi, eiga að hafa sem jafnasta möguleika á því að fara um landið, sérstaklega það sem er til almennings nota, og að því þarf að huga.

Gagnrýnt hefur verið og að því fundið, að of stór og óhentug tæki hafi verið notuð til verksins og á það blínt. Það er nokkuð til í því. Það er með þessa framkvæmd, sem og margar aðrar, að þær stinga í augu í miðjum klíðum. Vegarframkvæmdin í Hörgsnesi í Vatnsfirði á Barðaströnd var lýsandi dæmi og nú gerð ofanflóðamannvirkja ofan Patrekshafnar. En markmiðið er það, að í lokin standi verk, vel gert og snoturt, sem flestir geta verið sammála um.

Næsta skref í þeirri framkvæmd, sem nú hefur verið stöðvuð, var að fara með viðeigandi tæki um slóðann. Draga hann saman, jafna yfirborðið og bera í það malað efni og snyrta útlínur eða kanta, og planta síðan trjám og blómstrandi jurtum, birki og eli og t.d. blágresi þar sem á við og hentar meðfram slóðanum. Það verður einhver bið þar á eða þar til losað hefur verið um þann rembihnút sem nú hefur verið reyrður í nafni fornminja- og skipulagslaga. En „Bókstafurinn blífur“ um stund.

Patreksfirði 10. október 2022.

Úlfar B Thoroddsen ritari stjórnar Skógræktarfélags Patreksfjarðar

DEILA