Merkir Íslendingar – Lilja Guðmundsdóttir

Lilja Guðmundsdóttir fæddist í Hafnarfirði þann 3. október árið 1915 en flutti með foreldrum sínum til Flateyrar er hún var fimm ára og átt heima þar síðan. Hún lauk barnaskólanámi á Flateyri.

Systkini Lilju:

Sigurlaugur, f. 1.10. 1911, d. 21.10.1988, iðnaðarmaður í Reykjavík; Ingileif, f. 29.9.1913, d. 3.3. 2009,  móðir í Hafnarfirði.

Foreldrar Lilju voru Guðmundur Guðmundsson, f. 1.12.1882, d. 2.10. 1982, skósmiður í Hafnarfirði og á Flateyri, og k.h., Guðrún Þórunn Jónsdóttir, f. 13.9.1872, d. 5.6.1957, húsmóðir frá Litlu-Tungu í Miðfirði.

Guðmundur, faðir Lilju, var bróðir Kristjáns, föður þeirra Kirkjubólssystkina, Halldórs rithöfundar, Guðmunda Inga skálds, Ólafs skólastjóra pg Jóhönnu Guðríðar húsfreyju. Systir Guðmundar var Guðrún, amma Gests Ólafssonar arkitekts. Guðmundur var sonur Guðmundar, b. á Kirkjubóli, Pálssonar, bróður Hákonar, langafa Sigurjóns Péturssonar, fyrrv. borgarfulltrúa. Systir Guðmundar eldri var Solveig, amma Gils Guðmundssonar rithöfundar. Móðir Guðmundar var Kristín Hákonardóttir, b. í Grafargili, Hákonarsonar, bróður Brynjólfs, á tvo vegu langafa Guðnýjar, móður Guðmundar G. Hagalíns rithöfundar. Brynjólfur var einnig langafi Gísla, föður Guðmundar G. Hagalíns.

Lilja vann alla tíð við fiskyinnslu á Flateyri. Hún starfaði hjá Ásgeiri Guðnasyni, kaupmanni og útgerðarmanni, á árunum 1930-38 og síðan samfellt í sama frystihúsinu á Flateyri á árunum 1938-89, en hjá nokkrum fyrirtækjum. Fyrst í nýbyggðu Hraðfrystihúsi Flateyrar hf. 1938-43, hjá ísfelli hf. 1943-60, hjá Fiskiðju Flateyrar hf. 1960-67, Hrímfaxa hf. 1968 og hjá Hjálmi hf. 1968-89.

Eftir fimmtíu ára starf í sama frystihúsinu 1988 verðlaunaði Hjálmur hf. Lilju með þriggja mánaða ferð til Kanada.

Sjómannadagsráð á Flateyri sæmdi Lilju heiðursmerki sjómannadagsins árið 1983 og var hún eina konan sem þar hefur hlotið slíka viðurkenningu.


Auk þess að vinna í fiski átti Lilja kindur með pabba sínum, Guðmundi  skósmið. En einmitt vegna þess að pabbi hennar var skósmiður er hún alltaf kölluð Lilja skó og þekkja hana allir best undir því nafni.

Þá ræktaði Lilja kartöflur í Eyrarhjöllunum ofan Flateyrar og geymdi kartöflur fyrir marga Flateyringa í jarðhúsi sínu þar.

Lilja Guðmundsdóttir lést á Heilbrigðisstofnun Vestfjarða á Ísafirði þann 17. október árið 2005.

Útför Lilju  var gerð frá Flateyrarkirkju þann 22. október 2005.

Lilja Guðmundsdóttir við merkingu skreiðarumbúða í Hjálmi h.f. á Flateyri.


Lilja Guðmundsdóttir t.v. með heiðursmerki sjómannadagsins árið 1983.
Við hlið hennar er Jakobína Jakobsdóttir.
1988.

DEILA