Kómedíuleikhúsið: sýnir Tindátana

Kómedíuleikhúsið fékk styrk til að setja upp sýningu um tindátana.

Kómedíuleikhúsið hefur sýnt í vikunni leikritið Tindátana fyrir fullu húsi á þremur stöðum.

Uppselt var á allar sýningar vikunnar sem voru á Flateyri á þriðjudaginn, á Þingeyri á miðvikudaginn og á Patreksfirði í gær, föstudag. Tindátarnir verða næst í Bolungarvík mánudaginn 10. október.

Kynning leikhússins á leikritinu er eftirfarandi:

„Hér er ekki bara sagt frá því hve stríð eru tilgangslaus og miskunarlaus. Heldur og hve einræði getur verið hættulegt og leitt af sér hörmungar svo miklar að úr verður styrjöld þar sem þúsundir, nei afsakið milljónir falla í valinn og halda á önnur svið. Flest þeirra saklausir borgarar. Markmið verkefnis okkar er að færa þessa mikilvægu ljóðsögu, Tindátarnir, eftir Stein Steinarr, á senu til handa æskunni. Leikurinn er skuggaleikhús sem er um margt lítt notað leikhúsform hér á landi. Tónlist leikur stóran þátt í sýningunni og styðja þannig við ævintýrið. Leikurinn Tindátarnir mun án efa hreyfa við og fá æskuna okkar til staldra dálítið við og hugsa, ekki síst nú á dögum þar sem fréttir af stríði hafa verið áberandi síðustu misseri.“

Brúðumeistari: Marsibil G. Kristjánsdóttir. Leikari: Elfar Logi Hannesson. Tónlist: Soffía Björg Óðinsdóttir. Búningahönnun: Sunnefa Elfars. Lýsing: Sigurvald Ívar Helgason. Leikstjórn: Þór Tulinius.

Sviðslistasjóður styrkir uppfærsluna.

DEILA