Írönsk kvikmyndagerð áberandi á Piff

Íranskar myndir eru áberandi á dagskrá Piff í ár og þó nokkrir íranskir kvikmyndargerðarmenn ætla leggja leið sína á Vestfirði á hátíðina í næstu viku. Mikill uppgangur hefur verið í kvikmyndagerð í Íran segja aðstandendur hátíðarinnar og þar eru afar góðir kvikmyndaskólar. „Þegar menn geta ekki sagt sögu hreint út vegna ritskoðunar nota þeir oft nýja nálgun og breyta reglunum. Það sér maður í myndum þaðan, “ segir Fjölnir Baldursson, Piff-stjórnandi aðspurður hvað veki áhuga þeirra um íranska kvikmyndagerð.

Aðstandendur Piff hafa reynt að greiða götu íranskra kvikmyndagerðarmanna til að komast á hátíðina með að fella niður umsóknargjald þeirra en þar sem gjaldmiðill landsins er ekki nothæfur til að fá kreditkort til að greiða erlend gjöld.

Mikið var haft fyrir því að fá aðalleikkonu The Untouchable til landsins en Nika Shahnazzadeh býr í Íran. Það hafðist með miklum svita og talsvert af tölvupóstsamskiptum að fá vegabréfsáritun fyrir hana að sögn Fjölnis. Leikstjórinn Avazeh Shahnavaz er einnig væntanleg á hátíðina. Hún er írönsk en býr í Kanada.

Myndin fjallar um unga stúlku sem fríkar út á umferðargötu. Lögregla er kölluð út en getur ekkert aðhafst þar sem karlkyns lögreglumenn mega ekki snerta kvenmenn og engin lögreglukona er á vakt. „Frábær myndataka og sterkur leikur gera þessa mynd að veislu fyrir augað. Óvenjuleg saga og sterk efnistök gera þessa mynd sérstaka, “ segir Fjölnir.

Myndin Hot Scent sýnir vel togstreitu milli yngri kynslóða og þeirra eldri þar sem hún segir sögu ungrar konu sem nær ekki heim til sín áður en myrkur skellur á. Af ótta við viðbrögð strangra foreldra sinna ákveður hún að verja nóttinni utan heimilisins en það hrindir af stað atburðarás sem enginn hefði getað séð fyrir.

Þá eru einnig fjórar íranskar stuttmyndir á dagskrá hátíðarinnar. Sú fyrsta er Midnight Special og fjallar um öryggisvörð sem ákveður að gera sér dagamun á Valentínusardeginum. Sterk mynd undir amerískum áhrifum en samt svo öðruvísi, að sögn Piff-manna. Leikstýrð af Pouria Pishvaei.

Garden er um gamlan mann sem sér lík í garðinum hjá sér og á sama tíma bankar ung

stúlka á garðdyrnar. Hann felur líkið og opnar fyrir stelpunni. „Þessi mynd er sérlega vel gerð og vel útfærð saga. Ein af betri myndunum hjá okkur,“ segir Fjölnir. Leikstjóri er Mostafa Soleymani

Doll Story er einleikur sem fjallar um líf ungar konu þar sem notast er við brúður á sviðinu til að segja söguna. „Mjög sterk saga um hve margir í hennar lífi misnotuðu hana og er ótrúlega erfið. Vel leikin mynd sem lætur manni svíða óréttlætið sem aðalpersónan hefur orðið fyrir, “ segir Fjölnir.  Leikstjórinn er fræg leikkona Shakila Samavati að nafni sem er einmitt væntanlegur sem gestur á hátíðina og mun sitja fyrir svörum að sýningu lokinni.

The Statue (Peykareh) er brúðumynd og er einstaklega vel gerð með sterkri sögu. Leikstjórinn Mohsen Salehi Fard hefur gert margar stutt- og brúðumyndir. Hann hefur fengið verðlaun fyrir margar myndir og þessi tiltekna mynd hefur fengið verðlaun á flestum hátíðum sem hún hefur verið á.

The Sprayer er tölvugerð teiknimynd sem fjallar um veröld þar sem engin náttúra má þrífast. Þar eru engin blóm og ekkert gras. Veröld þar sem einræði ríkir og það er veröld full af ofbeldi. Hún var frumsýnd á stórri hátíð erlendis þann 15. september en verður svo sýnd að öðru sinni í heiminum á Piff sem einnig verður Evrópu-frumsýning. Leikstjórinn Farnoosh Abeo hefur sýnt myndir á yfir 200 kvikmyndahátíðum um alla veröld.

Heimildamyndin Beloved er einnig afar áhugaverð en hún fjallar um hina 82 ára gömlu Firouzeh sem hirðir um kýr frá morgni til kvölds í fjöllum Norður-Íran. Hún er ekkja og ekkert af hennar ellefu börnum heimsækir hana en hún nýtur einverunnar og býr í sátt og samlyndi við náttúruna. Leikstjórinn Yaser Talebi er vel þekktur og hefur fengið mörg verðlaun fyrir sínar myndir. 

Þess má svo til gamans geta að vinningshafi hátíðarinnar fyrir besta handritið í fyrra kom einnig frá Íran. Það var leikstjórinn Saba Ghasemi en um var að ræða handritið að myndinni The Castle sem hún gerði í Tehran University of Art.

Hátíðin fer fram á norðanverðum Vestfjörðum dagana 13. til 16.  október. Allar nánari upplýsingar á piff.is.

DEILA