Auðlindin okkar heldur fundaröð á landsbyggðinni – á Ísafirði á þriðjudaginn

Samræðufundir á landsbyggðinni eru hluti verkefnisins Auðlindin okkar sem Svandís Svavarsdóttir matvælaráðherra setti á laggirnar í maí sl. Tilgangur verkefnisins er að greina áskoranir og tækifæri í sjávarútvegi og tengdum greinum ásamt því að meta þjóðhagslegan ávinning fiskveiðistjórnunarkerfisins. 

Í ljósi reynslu af endurskoðun á fiskveiðilöggjöfinni á undanförnum árum og áratugum varð niðurstaða matvælaráðherra sú að beita þyrfti nýrri nálgun við þær fjölmörgu áskoranir og tækifæri sem eru í sjávarútvegi og snerta samfélagið allt með beinum og óbeinum hætti. Í stað einnar stórrar pólitískrar nefndar var komið á laggirnar opnu, þverfaglegu og gagnsæju verkefni fjölmargra aðila sem unnið verður með skipulegum hætti á kjörtímabilinu.

Í fréttatilkynningu frá ráðuneytinu segir að samræðufundirnir eru mikilvægur hluti þessarar nálgunar og er ætlað að vera vettvangur umræðu og skoðanaskipta. Leitað er eftir að kynnast viðhorfum, skoðunum og þekkingu fundargesta fremur en að setið sé fyrir svörum.

Matvælaráðherra verður á Ísafirði á þriðjudaginn í Edinborgarhúsinu.

Edinborgarhúsinu Ísafirði, 25. október kl. 17:00–19:00
Fundarstjóri: Gylfi Ólafsson, formaður bæjarráðs Ísafjarðarbæjar.

Verkefnið Auðlindin okkar hófst í júní með skipun fjögurra starfshópa, SamfélagAðgengiUmgengni og Tækifæri ásamt samráðsnefnd. Greinargerð hefur verið birt í samráðsgátt  um stöðu vinnu við sjávarútvegsstefnu matvælaráðherra og gefst þar öllum kostur á að koma á framfæri hugmyndum og athugasemdum sem nýst geta við stefnumótunina. Frestur til að veita umsögn er til og með 20. nóvember 2022. Gert er ráð fyrir að endanlegar afurðir úr verkefninu líti dagsins ljós sem frumvörp til Alþingis vorið 2024.

DEILA