Gamanmyndahátíð Flateyrar um helgina

Gamanmyndahátíð Flateyrar verður haldin í fimmta sinn um helgina, en hátíðin hóf göngu sína árið 2017 og hefur notið mikilla vinsæla alla tíð, enda hátíðin vel sótt og boðið upp á fjölbreytta dagskrá auk kvikmyndasýninga.

Meðal helstu viðburða í ár er heiðurssýning á Dalalíf þar sem Karl Ágúst Úlfsson tekur á móti heiðursverðlaunum kl. 20:00 á föstudagskvöldið. Klukkan 22:00 sama kvöld verður París Norðursins varpað á húsið sem myndin gerist að miklu leiti í. Í kjölfarið á útisýningunni verður París Norðursins partý í Vagninum þar sem hinn eini sanni Prins Póló mun stíga á svið og spila titillag myndarinnar ásamt fleiri vinsælum lögum.

Á laugardaginn verða sýndar fyndnar stuttar kvikmyndir allan daginn og um kvöldið verður 30 ára afmælissýning á Ingaló sem var tekin upp á Flateyri, Suðureyri og víðar. Eru þeir sem voru aukaleikarar í myndinni eða komu að gerð hennar á einn eða annan hátt sérstaklega hvattir til að mæta.

Í kjölfarið á sýningu Ingaló verður lokapartý hátíðarinnar og verðlaunaafhending sem er opin öllum og endar á vagninum þar sem Love Gúru mun stíga á svið og skemmta fólki langt fram eftir nóttu.

Sunnudagurinn verður helgaður börnunum þar sem Improve Ísland verður með spunanámskeið fyrir börn á aldrinum 8-12 ára (Skránin á netfanginu: nielsson@icelandcomedyfilmfestival.com) Að námskeiði loknu verður barna bíósýning klukkan 15:00.

Frekari upplýsingar má finna inn á facebook síðu hátíðarinnar: www.facebook.com/gamanmyndahatid

Uppbyggingarsjóður Vestfjarða og Þróunarsjóður Flateyrar styrkja hátíðina veglega ásamt fyrirtækjum á Vestfjörðum.

DEILA