Ferðafélag Ísfirðinga: óvissu- og lokaferð sumaráætlunar

Laugardaginn 17. september
Fararstjórn: Kemur í ljós!
Mæting: Kl. 10 við Bónus.
Þátttakendur gleðjast yfir mat og drykk að göngu lokinni.

 

Þá er komið að óvissuferð Ferðafélags Ísfirðinga sem jafnframt er lokaferð á ferðaáætlun félagsins nú í ár. Það er reyndar ekki loku fyrir það skotið að félagið bjóði upp á ferðir í vetur. Það verður bara að koma í ljós. Mikil spenna og ákveðin dulúð er alltaf yfir þessum svokölluðu óvissuferðum vegna óvissunnar um það hvert verði nú farið og hver verði fararstjóri. Það er hins vegar alveg meitlað í stein að félagið býður alltaf öllum þátttakendum upp á ljúffenga súpu með brauði og ýmsu öðru góðgæti í framhaldi af þeim veitingum í lok ferðanna.

Óvissu- og lokaferðin í fyrra var mögnuð gönguferð um Keldudal í Dýrafirði undir leiðsögn Gunnhildar Bjarkar Elíasardóttur, þeirrar sömu og stýrði fyrstu gönguferð félagsins það árið. Hún opnaði dyrnar það árið og lokaði þeim einnig. Það fór vel á því að hún væri í þessu hlutverki þar sem að hún er ein af þeim sem lætur sig ekki vanta í ferðir félagsins ef hún kemur því við. Öllum þátttakendum í lokaferðinni var svo boðið að þiggja veitingar í Simbahöllinni á Þingeyri áður en heim var haldið.

 

 

Ljósmyndina tók Hilmar Pálsson en hún er tekin í lok óvissuferðarinnar í fyrra. Þátttakendur veifa og brosa sínu breiðasta enda nýbúnir að ljúka skemmtilegri göngu og borða ljúffenga súpu í Simbahöllinni.

Þeir sem ætla að taka þátt í óvissuferðinni eru beðnir um að skrá sig á netfanginu ferdafelag.isfirdinga@gmail.com í síðasta lagi fimmtudaginn 15. september kl. 16.00

DEILA