Safnahúsið Ísafirði: sýning um Rolling Stones til 12. ágúst

Frá sýningunni í Safnahúsinu. Mynd: aðsend.

Í tilefni af 60 ára starfsafmæli bresku rokkhljómsveitarinnar The Rolling Stones var sett upp í júlí sýning í Safnahúsinu á Ísafirði með munum og minjum sem tengjast 60 ára ferli hljómsveitarinnar ásamt upptökum og viðtölum í tengslum við komu Mick Jagger, söngvara hljómsveitarinnar, til Ísafjarðar um verslunarmannahelgi 1999. Að sýningunni standa nokkrir valinkunnir Stónsarar með iðnaðarmennina Guðmund Grétar Níelsson, Flosa Kristjánsson og Guðmund Óla Kristinsson í fararbroddi. Þeim til aðstoðar hafa komið að uppsetningu sýningarinnar tónlistarmennirnir Kristinn Níelsson, Kristján Þór Bjarnason og Sigurður Pétursson sagnfræðingur, auk fleiri velunnara.

Sýningin stendur til 12. ágúst og er opin virka daga kl. 12 – 18 og laugardaga kl. 13 – 16.

Rolling Stones hafa aldrei leikið á Íslandi en aðdáendur sveitarinnar hafa þó enn ekki gefið upp vonina um að einn daginn komi að því. Þangað til sá dagur rennur upp vilja áhangendur Rolling Stones gefa Ísfirðingum og gestum þeirra kost á að upplifa stemminguna kringum elstu og mestu rokksveit allra tíma í Safnahúsinu á Ísafirði með sýningu á munum og minjum sem tengjast sögu sveitarinnar og heimsókn Micks Jagger til Ísafjarðar árið 1999.

DEILA