Önundarfjörður: Enn er synt í klauffar Sæunnar

Það er komin hefð á Sæunnarsundið í Önundarfirði síðasta laugardag í ágúst og árið 2022 er engin undantekning. Sundið stækkar og stækkar með hverju árinu, það er að segja fleiri og fleiri skrá sig til leiks og núna eru á fjórða tug syndara að tygja sig til sunds. Að þessu sinni verður synt öfugt, það er að segja frá Valþjófsdal og til Flateyrar og lagt verður af stað stað kl. 10:00 og ef að líkum lætur þurfa áhorfendur að vera mættir á kambinn eigi síðar en 10:30 til að taka á móti fyrstu syndurum.

Fyrst var synt í klauffar Sæunnar árið 2018, sundið var fellt niður 2020 vegna covid faraldurs en þráðurinn tekinn upp að nýju árið 2021 og nú eru þetta í fjórða sinn sem ofurhugar synda þvert yfir fjörðinn til heiðurs afrekskýrinnar Sæunnar.

Sæunn var sem kunnugt er kýr sem leiða átti til slátrunar árið 1987 í sláturhúsinu á Flateyri enda var þá fyrirskipun að fækka í fjósum. Það var kýrin Harpa sem dró stysta stráið í Neðra Breiðadal, hún dó ekki ráðalaus, í orðsins fyllstu merkingu, sleit sig frá starfsmönnum sláturhússins á bryggjunni á Flateyri og stakk sér umsvifalaust til sunds. Um það bil klukkutíma síðar gekk hún á land í Valþjófsdal og hlaut skjól í fjósi bænda á Kirkjubóli hvar hún lifði góðu lífi í allmörg ár.

Frá Sæunnarsundi.

DEILA