MERKIR ÍSLENDINGAR – ÁSVALDUR GUÐMUNDSSON

Ásvaldur Ingi Guðmundsson fæddist í Ástúni, Ingjaldssandi, þann 20. september 1930.

Foreldrar Ásvaldar voru Guðmundur Bernharðsson, f. 10. nóvember 1899 á Kirkjubóli í Valþjófsdal, d. 18. nóvember 1989, og Kristín Jónsdóttir, f. 21. júní 1901 á Höfðaströnd í Grunnavíkurhreppi, d. 23. nóvember 1969.

Systkini Ásvaldar voru:

Finnur Hafsteinn, f. 20. júlí 1926, d. 6. ágúst 1997, Bernharður Marsellíus, f. 7. júlí 1936, d. 17. júní 2015, Sigríður Kristín, f. 5. mars 1932, d. 8. ágúst 2016, Þóra Alberta, f. 31. mars 1942, d. 21. desember 2019.

Eftirlifandi eiginkona Ásvaldar er Gerða Helga Pétursdóttir, f. 7. júní 1938, frá Engidal í Skutulsfirði. Þau gengu í hjónaband 14. október 1961.

Synir þeirra eru þrír:

1) Pétur Ingi, f. 5. mars 1957, eiginkona Rebekka Jóhanna Pálsdóttir, f. 10. mars 1959. Dætur þeirra: Linda Björk, f. 1981, Gerða Helga, f. 1984. Dóttir Péturs: Kristín Guðmunda, f. 1976.

 2) Guðmundur Kristinn, f. 26. október 1962, sambýliskona Unnur Cornette Bjarnadóttir, f. 28. mars 1962. Börn þeirra: Unnar Kristinn, f. andvana 1999, Ásrós Helga, f. 2001. Synir Unnar: Guðmundur Heiðar, f. 1981, Ívar Már, f. 1984, Svanberg Rúnar, f. 1989, Ástvaldur, f. 1991.

 3) Sigurður Brynjar, f. 31. október 1963, eiginkona Árný Einarsdóttir, f. 23. janúar 1972. Börn þeirra: Sigrún Jónína, f. 1988, Stefanía Rún, f. 1990, Guðlaug Brynja, f. 1994, Einar Ásvaldur, f. 2001. Alls eru barnabarnabörn Ásvaldar og Gerðu orðin 18.

Ásvaldur vann að búskap með föður sínum frá æskuárum og á jarðýtum þess á milli. Hann stundaði nám við Héraðsskólann á Núpi og var búfræðingur frá Hvanneyri.

Ásvaldur og Gerða settu upp hringana 1. júlí 1956 uppi á Sandsheiði í fyrstu ferð hennar á Ingjaldssand og stofnuðu þau heimili í Ástúni 1959 og bjuggu þar með foreldrum Ásvaldar þar til þau tóku við búinu.

Ásvaldur hóf rekstur á jarðýtum ásamt félaga sínum Guðna Ágústssyni á Sæbóli, Ingjaldssandi og ráku þeir það félag saman í mörg ár.

Þau Gerða hættu búskap í Ástúni 1989 og fluttu að Núpi í Dýrafirði þar sem hann var húsvörður og staðarhaldari við Héraðsskólann. Þau fluttu á Hlíf 2 á Ísafirði 2019.

Lífsviðhorf og áhugamál Ásvaldar sáust vel á því að margir af hans bestu vinum og félögum voru tíu til tuttugu árum yngri en hann.

Ásvaldur byrjaði snemma að reyna sig við harmoniku og fór fljótlega að leika fyrir dansi í sveitinni. Hann var mikill áhugamaður um harmonikumúsík og spilaði á nikkuna nánast á hverjum degi fram á síðasta dag. Hann var heiðursfélagi í Harmonikufélagi Vestfjarða.Ásvaldur var mjög virkur félagsmálamaður í Ungmennafélaginu Vorblómi á Ingjaldsandi og einnig hjá Héraðssambandi Vestur Ísfirðinga sem í áratugi var með mikla starfsemi að Núpi í Dýrafirði.

Ásvaldur Ingi Guðmundsson lést á Heilbrigðisstofnun Vestfjarða á Ísafirði þann 13. ágúst 2021.

Ásvaldur var jarðsunginn frá Ísafjarðarkirkju þann 28. ágúst 2021.

______________________________________________________________________________


 

Halla Signý Kristjánsdóttir, alþingismaður frá Brekku á Ingjaldsandi, ritaði minningarorð í Morgunblaðið á útfarardegi Ásvaldar.„Hvað er svo glatt sem góðra vina fundur.“ Þetta lag með sinn ágæta texta var oft sungið á Ingjaldssandi í upphafi samkomu til að stilla saman strengi og binda tryggðabönd. Ekki var það verra ef spilað var undir á harmonikku og þannig sé ég fyrir mér Ása í Ástúni sem við nú kveðjum með þakklæti og virðingu.

Ási átti góða og langa ævi, en manni fannst hann eiga nokkuð eftir, en kannski var það eigingjörn ósk því hann lék stórt hlutverk þegar rifjaðar eru upp góðar minningar af Sandinum. Ég þakka fyrir liðið og ekki síst er ég þakklát fyrir að hafa fengið að fylgja svo heilsteyptum manni í gegnum marga áfanga á lífsleiðinni.

Fyrst vil ég minnast hans sem kennara, en hann kenndi mér fimm vetur í Vonalandi. Þolinmæði og góðmennska einkenndi kennarann Ása, „so so hvaða hvaða“ heyrðist í Ása þegar orkan í okkur krökkunum fór úr böndum og hann var fljótur að stilla til friðar. Ég hef stundum reynt að muna klukkan hvað skólinn hófst á morgnana og hvað lengi hann stóð yfir daginn en það hefur ekki tekist. Tíminn var frekar afstæður á Sandi en hann dugði til að fara yfir það sem þurfti og Ási brýndi fyrir okkur að nýta hann vel, vanda okkur og ekki síst að njóta hans.

Ég minnist Ása í því félagsstarfi sem stundað var á Sandi, sem var nokkurt í ekki stærra samfélagi, og þá þurftu allir að vera með til að vel tækist til. Það var sá lærdómur sem maður tók með sér út í lífið; að taka ábyrgð og leggja sitt af mörkum til samfélagsins, hlutur Ása var stór í því uppeldi. Ási var alltaf liðsmaður í Ungmennafélaginu Vorblómi og tók ábyrgð í stjórn og að fylgja okkur eftir í félagsstarfi og íþróttum. Þegar Átthagafélagið Vorblóm var stofnað var Ási með og við getum þakkað honum að Vonaland, samkomuhúsið á Ingjaldssandi, var alltaf í nafni Vorblóms en hann vann að því, þegar Mýrahreppur tók þátt í sameinuðum Ísafjarðarbæ, að hlutur hreppsins í húsinu gengi til átthagafélagsins. Auk þess sem hann hlúði að húsinu og gekk í það viðhald sem þurfti.

Ekki var það síst persónan Ási sem gott var að umgangast og þekkja. Það er hægt að segja með sanni að hann hafi verið já-maður, sem stundum er sagt. Hann byrjaði alltaf samtal á því orði. „Já! komdu sæl,“ það lýsti honum ágætlega enda bölsýni og niðurrif fjarri hans málflutningi.

Ási var heppinn með lífsförunaut. Hann og Gerða voru góð hjón og samhent með öll verkefni sem þau tóku sér fyrir hendur, gagnkvæm virðing og ást einkenndi þeirra samband. Það var gott að koma að Ástúni og alltaf tekið vel á móti manni með góðgæti og góðu viðmóti. Ég votta Gerðu og fjölskyldunni allri innilega samúð.

Við á Sandi getum haldið minningu Ása sem best á lofti með því að finna sólskinsblett í heiði og setjast þar og gleðja oss eins og segir í kvæðinu.

Halla Signý Kristjánsdóttir, Brekku.


_______________________________________________________
 

    Ásvaldur Guðmundsson...

Mynd frá héraðsþingi H.V.Í. að Núpi í Dýrafirði snemma áníunda áratugisíðustu aldar. Þessir miklu félagsmálamennfyrir vestan hafa aldrei verið með ræðukvíða enda hlaðnir ungmennafélagsanda.F.v.: Bergur Torfason frá Felli í Dýrafirði, Jón Guðjónsson frá Veðrará í Önundarfirði, Ásvaldur Guðmundsson frá Ástúni á Ingjaldssandi og Hilmar Pálssonfrá Suðureyri við Súgandafjörð. Ljósm.: BIB

Skráð af Menningar-Bakki.

DEILA