Íslenskunámskeið Háskólaseturs Vestfjarða byrja 1. ágúst

Kæru Vestfirðingar.

Núna í ágúst eru, líkt og raunin hefir verið í rúman  áratug, íslenskunámskeið Háskólaseturs Vestfjarða. Námskeiðin og þátttakaendur þeirra munu næsta víst lífga upp á Ísafjarðarbæ og nágrenni á næstunni. Kemur örugglega alls konar íslenska til með að heyrast næstu daga. Gaman að því.

Við í Háskólasetri Vestfjarða bjóðum upp á fimm námskeið, þrjú byrjendanámskeið og tvö fyrir lengra komna á tímabilinu 1. ágúst til 2. september. Nemendafjöldinn verður að líkindum um 60 manns.

Þið Vestfirðingar megið því eiga von á því að margir nemenda okkar spreyti sig á íslensku við ykkur. Við biðjum ykkur því um að taka vel á móti þeim, sýna þolinmæði og vonandi liðsinna þeim þó ekki sé nema smávægilega. Til þess að svo megi sem best vera er mikilvægast að nota íslensku sem mest enda lærir enginn íslensku af ensku eða öðru erlendu máli.

Sérstaklega biðjum við þá í þjónustugeiranum og þá helst þá sem eru íslenskuvænir staðir að hafa þetta í huga.

Segjast verður og eins og er að Ísafjarðabær og nágrenni er afar góður staður til að reyna fyrir sér í íslensku. Allajafna sýnir fólk hér þolinmæði og lagar mál sitt að getu þess sem lærir. Það er sannlega til eftirbreytni.

Nærumhverfið hefir því, í gegnum tíðina, verið eins konar framlenging á kennslustofunni. Næsta víst að kemur það til með að vera það áfram. Eykst enda sífellt meðvitund gagnvart því hvað það felur í sér að læra erlent mál, að læra íslensku og mikilvægi þess að vera eins konar almannakennari þegar kemur að þeim sem vilja læra málið.

Með bestu fyrirfram þökkum fyrir að tala íslensku við nemendurna, og reyndar bara alla þá sem leggja stund á málið.

Ólafur Guðsteinn Kristjánsson verkefnastjóri íslenskunámskeiða Háskólaseturs Vestfjarða

DEILA