Ísafjarðarbær: 73 m.kr. betri afkoma af rekstri fyrri hluta ársins

Ísafjörður. Mynd: Kristinn H. Gunnarsson.

Afkoma af rekstri Ísafjarðarbæjar sýnir rekstrarafgang upp á 41,6 m.kr. fyrir janúar til júní 2022. Fjárhagsáætlun fyrir
sama tímabil gerir ráð fyrir rekstrarhalla upp á 31,5 m.kr. Afkoman er því 73 m.kr. betri en fjárhagsáætlun gerir ráð fyrir á fyrri hluta ársins.
Rekstrartekjur samstæðu eru hærri en áætlun gerði ráð fyrir sem nemur 230 m.kr. og rekstrargjöld eru lægri en áætlun gerði ráð fyrir sem nemur 15 m.kr. Samtals er þetta 245 m.kr. betri afkoma. Á móti því eru fjármunatekjur og fjármagnsgjöld 172 m.kr. hærri í kostnaði en áætlun gerði ráð fyrir.

Mestu munar um að útsvarstekjur eru 112 m.kr. hærri en áætluninni nemur. Þá eru þjónustutekjur 94 m.kr. umfram áætlun. Gjaldamegin eru launakostnaður með launatengdum gjöldum 55 m.kr. undir áætlun og þjónustukaup 37 m.kr. umfram áætlun.

Hafnarsjóður 42 m.kr. umfram tekjuáætlun

Hluti af þjónustutekjum kemur frá Hafnarsjóði en sjóðurinn er 42m.kr umfram tekjuáætlun á fyrri hluta ársins. Almenn hafnargjöld eru 8,5 m.kr. hærri en áætlað var og tekjur frá erlendum aðilum eru 33 m.kr. hærri en áætlað var.

DEILA