Ferðafélag Ísfirðinga: Rembingur

Laugardaginn 3. september
Fararstjórn: Emil Ingi Emilsson. 
Brottför: Kl. 9 frá Bónus á Ísafirði. 

Þægileg gönguleið upp á þetta fallega fjall sem er 799 m hátt. Í sumum heimildum er reyndar talað um klettahnúk en hann er þá ansi rismikill sem slíkur. Gangan byrjar reyndar í um 450 m.y.s. og því er hæðarhækkun í göngunni sjálfri um 350 m.

Stutt og skemmtileg ganga í góðum félagsskap sem tekur um 4 klst.

Keyrt frá Bónus upp gamla þjóðveginn yfir Breiðadalsheiði að vegamótunum niður á Suðureyri. Þá tekur við ganga eftir veginum upp að Kinn og þaðan upp á Horn eftir vegtroðningi. Þegar upp á Horn er komið er gengið eftir endilöngu Langafjalli út á Rembing.  

Stórkostlegt útsýni blasir við þegar komið er á tindinn og því vel þess virði að ganga upp á fjallið!

Það verður eins og vanalega lögð áhersla á jákvætt og þægilegt andrúmsloft í þessari göngu eins og öðrum göngum félagsins. Njóta en ekki þjóta! Í ferðinni verða a.m.k. þrjár sögustundir og þegar upp á toppinn er komið verður alveg örugglega gefinn nægilega langur tími til að borða  nesti. 

Farið verður yfir öll helstu örnefni á göngusvæðinu og sagt frá álagasögu tengdri heiðinni.

Einnig verður sagt frá eftirminnilegri póstferð Reinalds Kristjánssonar yfir heiðina sem hann fór 1. apríl 1908. Hann var landpóstur á leiðinni frá Ísafirði til Bíldudals á árunum 1902 – 1915 og mun hafa farið fleiri ferðir yfir Breiðadalsheiði en flestir eða allir aðrir.  Hann taldi sjálfur að ferðirnar hafi orðið 866. Reinald bjó að Kaldá á Hvilftarströnd. Magnús Hjaltason, sem um tíma var í Fremri – Breiðadal, hefur sagt frá þessari ferð en sjálfur greinir Reinald frá þessari örlagaríku ferð í bók sinni Á sjó og landi.

Reinald Kristjánsson hlóð einnig ásamt öðrum manni upp vörðurnar sem vísuðu rétta leið þegar menn fóru horn. Hornbrúnin liggur í 725 metra hæð yfir sjávarmáli og því 115 metrum hærra en Breiðadalsskarð sem fjallvegurinn yfir Breiðadalsheiði alfaraleiðin lá um þar sem nú er bílvegurinn. Þeir sem fóru horn gengu, þegar upp var komið, eftir fjallinu í átt að heiðarskarðinu og komu þannig í skarðið að ofan. Með þessu móti gátu menn skotið sér undan bráðri hættu á snjóflóðum í Kinninni. Ferðalangar urðu þá að vera vissir á því að hafa gengið fram hjá 18 vörðum því annars gengju þeir fram af hengiflugi og þyrfti þá ekki um sár að binda.

Þá er ekki loku fyrir það skotið að minnst verði á nokkra af þeim ábúendum sem bjuggu að Fremri – Breiðadal, þeim bæ sem næstur er heiðinni að sunnan. Þar bjuggu m.a. á sínum tíma Jón Sveinsson frá Hesti og Járngerður Indriðadóttir. Þau eignuðust 17 börn á árunum 1835 – 1864. Sjö þessara barna eignuðust afkomendur og er fjöldi afkomenda frá þeim kominn. Þau fluttu síðar að bænum Hvilft. Járngerður varð ekkja fimmtug. Árið 1837 giftust þrjú af börnum hennar öll sama daginn og var þá haldin sameiginleg og eftirminnileg brúðkaupsveisla þeirra systkina í samkomutjaldi á bæjarhólnum.

Magnús Hjaltason var árið 1892 fluttur frá Hesti í Önundarfirði að Fremri-Breiðadal þar sem honum var ætlað að dveljast næsta árið. Þegar hann kom að Fremri-Breiðadal réðu þar húsum hjónin Jóhann J. Guðmundsson og Hildur Sveinbjörnsdóttir og hjá þeim dvaldist Magnús sem niðursetningur í eitt ár. Þegar komið var með drenginn að Fremri-Breiðadal var hann algerlega óvinnufær en þar náði hann að safna kröftum og var að verða fær um að bjarga sér þegar hann fór þaðan tvítugur að aldri í ágústmánuði árið 1893.

Þjóðleiðin yfir Breiðadalsheiði hefur ætíð verið fjölfarin þó að vegurinn liggi efst í 610 metra hæð yfir sjávarmáli og ríðandi menn sem komu úr Önundarfirði hafi jafnan orðið að fara af baki og teyma hestinn til að ná heiðarskarðinu. Stutt fyrir  framan við vegskálann að göngunum gefst enn kostur á að skoða sýnishorn af gamla reiðveginum sem liggur þar upphlaðinn og vel frá genginn þó mjög langt sé um liðið síðan þar var um farið.  Reiðvegurinn gamli lá upp svokallaðar Skógarbrekkur og þá í mun beinni stefnu en elsti akvegurinn sem opnaður var fyrir umferð yfir heiðina haustið 1936. Hann  var lagður fyrir forgöngu sýslunefndar og var opnaður fyrir umferð 2. september 1936. Verkstjóri við þessa vegagerð var Lýður Jónsson og tókst honum að ljúka við lagningu vegar á síðustu 3.500 metrunum fyrir 15.000,- krónur en í áætlun verkfræðings hafði verið gert ráð fyrir að kostnaður við þennan síðasta áfanga yrði þrefalt hærri. Þegar bílar fóru að aka yfir Breiðadalsheiði var þetta hæsti fjallvegur landsins sem talist gat en heiðarskarðið liggur í 610 metra hæð yfir sjávarmáli eins og hér hefur áður verið nefnt. Fyrstur til að keyra á sjálfrennireið yfir heiðina var bílstjórinn Guðmundur Einar Albertsson frá Flateyri. Hann var líka bílstjóri þegar systkinin Jóhann og Guðjóna Guðbjartsbörn gengu að eiga maka sína, Guðrúnu Guðbjarnardóttur og Sturlu Ebenezerson, á háheiðinni í nóvember 1941. Torfi Hjartarson sýslumaður kom á móti brúðhjónunum og gaf þau saman inni í bíl hjá Guðmundi, ökumanni og eiganda Í-46, fyrsta bílsins sem ók yfir Breiðadalsheiði. Að athöfn lokinni var svo skálað og var Guðmundi gert, að kröfu sýslumanns, að skála við brúðhjónin.

Oft báru menn þungar byrðar yfir heiðina og má þar nefna að Guðmundur Justsson, sem uppi var á síðari hluta 19. aldar, er í trúverðugri heimild sagður hafa borið 100 kíló af kornmat frá Ísafirði og alla leið heim til sín að Dröngum í Dýrafirði í einni ferð. Sú vegalengd er um 50 kílómetrar og farið bæði yfir Breiðadalsheiði og Gemlufallsheiði. Fáir munu hafa leikið þetta eftir enda Guðmundur rammur að afli.

Það er samt algjör óþarfi fyrir þátttakendur í ferðinni á laugardaginn að rembast á Rembinginn með byrði í námunda við þá byrði sem Guðmundur bar. Ferðin tekur í heild um fjórar klst. eins og áður hefur komið fram og er ótrúlega létt viðureignar miðað við hæðartölu. Væri líka snjallt að taka með sér berjafötu því að það er aldrei að vita nema tækifærið verði notað til berjatínslu í leiðinni. Láttu sjá þig. Þú sérð ekki eftir því.

Heimildir:

  1. Sögur og sagnir (Fremri Breiðadalur og fjallvegurinn yfir Breiðadalsheiði), Kjartan Ólafsson.
  2. Bæjarins besta, miðvikudaginn 18. september 1996.
DEILA