EINKAR SVÖL HRAÐ-ÍSLENSKA: SVIPMYNDIR

Hrað-íslenska Háskólaseturs Vestfjarða og Íslenskuvæns samfélags í samstarfi við Dokkuna brugghús fór afar vel fram miðvikudaginn 17.8. Var bæði vel- og góðmennt. Einstaklega ánægjulegt verður að teljast að fjöldi almannakennara, þeir sem liðsinntu íslenskunemendum, var mikill. Sautján almannakennarar mættu til leiks og voru þeir raunar fleiri en nemendur.

Má því leiða líkur að því að meðvitund gagnvart hlutverki almannakennara, hvað það felur í sér að læra íslensku og hvernig má liðsinna, sé vaxandi.

Gerður var góður rómur að uppátækinu og virtust allir aðilar skemmta sér hið besta enda má sannlega hafa gaman af því að læra og miðla íslensku.

Á næstunni er stefnt á annað svona kveld en þá með nemendum sem eru eitthvað lengra komnir á íslenskubrautinni (B1-stig). Er óskandi að almannakennarar láti sig ekki vanta þá frekar en 17. ágúst.

Sé áhugi á því að vera með -gildir bæði um þá sem læra og þá sem vilja liðsinna- má melda sig með því að senda tölvupóst á islenska(hja)uw.is ellegar slá á þráðinn í gegnum 8920799.

Með þessu greinarkorni má svo berja svipmyndir af kveldinu augum.

Ólafur Guðsteinn Kristjánsson umsjónarmaður íslenskunámskeiða Háskólaseturs Vestfjarða og meðlimur í starfshópi Íslenskuvæns samfélags

DEILA