Nýr skólastjóri á Drangsnesi

Guðný Rúnarsdóttir afhendir Ástu Þórisdóttur lyklana að skólanum. Mynd: Lilja Sigrún Jónsdóttir

Ásta Þórisdóttir hefur verið ráðin nýr skólastjóri í Grunnskóla Drangsness. Ásta tekur við af Guðnýju Rúnarsdóttur sem lætur nú af störfum eftir tveggja ára starf. Á Drangsnesi eru 7 nemendur í tveimur bekkjardeildum frá 1.-9. bekk í vetur.

Frá þessu er sagt á fréttavefnum strandir.is

Það má segja að Ásta sé komin á heimaslóðir því hún er uppalin í skólastjóraíbúðinni í Grunnskólanum á Drangsnesi en foreldrar hennar, Þórir Haukur Einarsson og Lilja Sigrún Jónsdóttir störfuðu við skólann á þriðja áratug, Þórir sem skólastjóri og Sigrún sem leiðbeinandi og síðar kennari. Ásta kenndi svo síðar einn vetur á Drangsnesi 2004 – 2005 og náði þá að kenna eitt ár með mömmu sinni Sigrúnu.

Ásta er með BA í myndlist, M.A.Ed gráðu í listkennslu og MA í hönnun. Hún hefur kennt listgreinar ásamt öðru í Grunnskóla Hólmavíkur í 18 ár auk þess að hafa kennt bæði í leik- og framhaldsskólum. Ástu líst vel á nýja starfið og segist spennt fyrir að takast á við starfið, það sé öðruvísi krefjandi verkefni að skipuleggja kennslu í mjög fámennum skólum en fjölmennari og reyni meira á sveigjanleika og fjölhæfni strarfsfólksins.

DEILA