Föstudagur 18. apríl 2025

Miðnætursól: glæsilegir tónleikar í Bolungavík

Auglýsing

Kyiv Soloists komu fram í íþróttahúsinu í Bolungavík í gærkvöldi og héldu stórglæsilega tónleika. Á þriðja hundrað manns lögðu leið sína í íþróttahúsið á tónleikana. Kyiv Sololists komu til landsins á vegum Tónlistarhátíðarinnar Miðnætursólar sem Tónlistarskóli Bolungarvíkur stendur fyrir ásamt Bolungarvíkurkaupstað. Aðrir tónleikar verða þriðjudaginn 5. júlí í Hörpu í Reykjavík.

Í ársbyrjun 2022 fór hljómsveitin í tónleikaferð um Evrópu og á Ítalíu fékk hún fréttir af innrás rússneskra hermanna í Úkraínu. Allt breyttist og það var ekki lengur mögulegt að snúa aftur heim til Úkraínu. Í samvinnu við leiðandi tónleikasamtök í Evrópu var tónleikaferð Kyiv Soloists framlengd um óákveðinn tíma.

„Við spilum fyrir friði í Úkraníu“, segja þau. Sérstaklega var áhrifamikil ræða einnar úr hljómsveitinni sem lýsti áhrifum innrásar Rússa í Úkraínu á hana og landsmenn hennar.

Tónleikarnir voru styrktartónleikar fyrir Úkraínu. Frjáls framlög má greiða á reikning 0174-05-401129, kennitölu 650269-2339.

Með hljómsveitinni spiluðu feðgarnir og heimamennirnir Selvadore Rähni á klarinett og Oliver Rähni, píanó og fara þar tvímælalaust miklir tónlistarmenn. Stjórnandi var Erki Pehk. Leikin voru m.a. verk eftir Carl Maria von Weber, klarinettukonsert nr 1 í f moll og píanókonsert nr 1 í C dúr.

Veg og vanda að skipulagningu tónlistarhátíðarinnar Miðnætursól hafði Selvadori Rähni og sagði hann undirbúning hafa verið óvenjulega snúinn vegna covid19 og svo innrásarinnar í Úkraínu. Síðasta hátíð fór fram 2019. Selvadori þakkaði fjölmörgum sem lagt hafa hönd á plóg við undirbúning hátíðarinnar, sem sérstaklega færði hann Jóni Páli Hreinssyni, bæjarstjóra fyrir hans framlag.

Styrktaraðilar: Tónlistarskóli Bolungarvíkur, Bolungarvíkurkaupstaður, Uppbyggingarsjóður Vestfjarða, Harpa, Icelandair Hotels, Hótel Ísafjörður, Elísabet Guðmundsdóttir og Björgvin Bjarnason og Orkubú Vestfjarða.

Oliver Rähni ásamt Kyiv Soloists.
Jón Páll Hreinsson, bæjarstjóri ávarpar gestina.

Auglýsing

Nýtt á BB

Auglýsing
Auglýsing

Fleiri fréttir