MERKIR ÍSLENDINGAR -SIGURVEIG GEORGSDÓTTIR

Sigurveig Georgsdóttir fæddist í Reykjavík þann 31. júlí 1930.

Foreldrar Sigurveigar voru Georg Júlíus Guðmundsson skipstjóri frá Görðum í Önundarfirði, f. 11.1. 1898, d. 28.2. 1977, og Jónína Ingibjörg Magnúsdóttir húsmóðir, f. 8.11. 1907, d. 28.6. 1955.

Bræður Sigurveigar voru; dr. Guðmundur, læknir, forstöðumaður, kennari og háskólaprófessor, f. 11.1. 1932, d. 13.6. 2010, og Magnús Jónsson, rennismiður, forstöðumaður og framkvæmdastjóri, f. 24.12. 1930, d. 18.1. 2000.

Sigurveig gekk í hjónaband 8.11. 1957 og eftirlifandi eiginmaður hennar er sr. Lárus Þorvaldur Guðmundsson, prestur og prófastur, f. 16.5. 1933.

Foreldrar hans voru Guðmundur Guðni Kristjánsson frá Ísafirði, verkstjóri og skrifstofumaður, f. 23.1. 1893, d. 4.11. 1975, og Lára Ingibjörg Magnúsdóttir húsmóðir, f. 19.7. 1894, d. 15.7. 1990.

Börn Sigurveigar og Lárusar eru:

1) Georg Kristinn, forstjóri Landhelgisgæslu Íslands, f. 21.3. 1959.

2) Ragnheiður, ljóðskáld og kennari við Menntaskólann í Kópavogi, f. 29.5. 1961.

3) Özur, framkvæmdastjóri Bílgreinasambandsins, f. 1.6. 1965.

Sigurveig ólst upp á Sólvallagötunni í Vesturbæ Reykjavíkur. Hún gekk í Landakotsskóla og Kvennaskólann í Reykjavík þaðan sem hún útskrifaðist með gagnfræðapróf 1948. Hún stundaði hjúkrunarnám við Hjúkrunarskóla Íslands og útskrifaðist þaðan 1954. Eftir útskrift vann hún sem hjúkrunarfræðingur á skurðstofum Landspítalans þar til hún fluttist að Holti í Önundarfirði ásamt eiginmanni sínum og fjölskyldu.

Árið 1969 hóf Sigurveig störf á Heilsugæslustöðinni á Flateyri og starfaði þar til ársins 1987. Árið 1976 var henni veitt sérleyfi í skurðhjúkrun og árið 1981 lauk hún framhaldsnámi í heilsugæsluhjúkrun við Háskóla Íslands. Það sama ár var hún skipuð hjúkrunarforstjóri Heilsugæslustöðvarinnar á Flateyri.

Sigurveig var virk í félagsmálum Hjúkrunarfélags Íslands, hún var formaður Vestfjarðadeildar félagsins og sat í samninganefnd þess um árabil.

Árið 1987 fluttist Sigurveig ásamt eiginmanni sínum til Kaupmannahafnar þar sem hún var honum til aðstoðar í starfi hans sem sendiráðsprestur. Þau bjuggu í Jónshúsi í Kaupmannahöfn; húsi Jóns Sigurðssonar frá Hrafnseyri við Arnarfjörð og konu hans Ingibjargar Einarsdóttur. Þórdís Jónsdóttir, móðir Jóns Sigurðssonar var prestsdóttir frá Holti í Önundarfirði.

Árið 1998 fluttust Sigurveig og sr. Lárus aftur til Íslands og settust að í Grafarvogi.

Sigurveig Georgsdóttir lést á hjúkrunarheimilinu Eir 4. mars 2018.

.
 

.
 

Úr Tímariti Hjúkrunarfélags Íslands árið 1987.
.
.

Eldri borgarar í Önundarfirði eftir Guðsþjónustu í Holtskirkju fyrir rúmlega 40 árumhjá sr. Lárusi Þ. Guðmundssyni og Sigurveigu Georgsdóttur.

Efst á tröppum Holtskirkju í Önundarfirði. 
F.v: Lárus Þ. Guðmundsson, Guðmundur Ingi Kristjánsson, Jóhanna Kristjánsdóttir,Sigurveig Georgsdóttir og Brynjólfur Árnason.



Skráð af Menningar-Bakki.

DEILA