MERKIR ÍSLENDINGAR – ÁSGEIR GUÐBJARTSSON

Ásgeir Guðbjartur Guðbjartsson fæddist í Kjós í Grunnavíkurhreppi þann 31. júlí 1928 .

Foreldrar hans voru Jónína Þ. Guðbjartsdóttir húsfreyja, og Guðbjartur Ásgeirsson, formaður og útgerðarmaður.

Systkini Ásgeirs: Margrét Elísabet, f. 1926,  Guðbjartur Kristján, f. 1930,   Hörður, f. 1932, Ragnheiður Ingibjörg f. 1937.

Eiginkona Ásgeirs var Sigríður Guðmunda Brynjólfsdóttir. Hún fæddist í Hörgshlíð í Ísafjarðardjúpi þann 29. maí 1931. Hún lést á Ísafirði 21. maí 2009.  Foreldrar hennar voru Guðný Kristín Halldórsdóttir frá Bolungarvík og Brynjólfur Ágúst Albertsson sjómaður frá Ísafirði.

Ásgeir og Sigríður eignuðust fjög­ur börn;

Guðbjart, f. 1949, Guðbjörgu, f. 1950, Kristínu Hjördísi, f. 1952 og Jónínu Brynju, f. 1953.

Ásgeir flutti ungur með foreldrum sínum til Hnífsdals og síðan til Ísafjarðar þar sem hann ólst upp. Hann hóf sinn sjómannsferil nýfermdur og var þá á dragnót upp á hálfan hlut. Ásgeir vann um tíma hjá Norðurtanganum og við beitingu. Sextán ára fór hann að róa upp á heilan hlut á línu-, troll- og síldarbátum.

Ásgeir tók hið minna fiskimannapróf á Ísaf­rði 1948 og hið meira fiskimannapróf í Stýrimannaskólanum í Reykja­vík árið 1965.

Hann var skipstjóri á Valdísi ÍS 72, 1948, Bryndísi ÍS 69, 1949, Jódísi ÍS 73 sama ár, Pólstjörnunni ÍS 85 í fjórar vertíðir, Ásbirni ÍS 12 1956, en tók þá við Guðbjörgu ÍS 47 og hafa þeir bátar og skip sem hann síðan var með verið nefnd Guðbjörg, en hann var á skuttogaranum Guðbjörgu ÍS 46.

Ásgeir stofnaði útgerðarfélagið Hrönn hf. á Ísafirði árið 1956. Stofnfélagar, auk Ásgeirs; voru faðir hans Guðbjartur, Guðmundur og Marías Guðmundssynir og Kristinn Arnbjörnsson. Hrönn hf. gerði út sjö báta og togara sem báru nafnið Guðbjörg ÍS. Útgerðin lét m.a. smíða fyrir sig frystitogara 1994 sem þá var talinn eitt fullkomnasta fiskiskip í heiminum.

Guðbjargirnar eða Guggurnar hans Geira, sem útgerðarfélagið Hrönn hf. gerði út, voru sjö talsins í þessari röð:

Árið 1956, 48 brúttórúmlestir;

árið 1959, 75 brl.;

árið 1963, 115 brl.;

árið 1967, 250 brl.;

árið 1974, 500 brl.;

árið 1981, 628 brl.;

árið 1994, 1.200 brl.

Ásgeir hætti til sjós árið 1995, 67 ára að aldri. Þá hafði hann verið skipstjóri í meira en 45 ár.

Ásgeir var afburða aflamaður og harðsækinn. Hann var aflakóngur á Ísafirði á sextán vetrarvertíðum samfleytt og auk þess var hann oft aflakóngur á Vestfjörðum.

Ásgeir var sæmdur riddarakrossi fálkaorðunnar 17. júní 1991.

Ásgeir Guðbjartsson lést þann 22. febrúar 2017.

Ásgeir Guðbjartsson ásamt eiginkonu sinni Sigríði Brynjólfsdóttur.

.

.

.

Skráð af Menningar Bakki.

DEILA