Knattspyrna: Vestri mætir Þrótti á morgun

Lið Vestra í Lengjudeild karla fær á morgun, miðvikudag, Þrótt í Vogum í heimsókn á Olísvöllinn á Ísafirði. Leikurinn hefst kl 20.

Eftir 13 umferðir af 22 er Vestri í 7. sæti deildarinnar með 19 stig en Þróttur er í neðsta sæti og 5 stig. Á laugardaginn áttu Vestramenn góðan leik og unnu Gróttu frá Seltjarnarnesi 3:1. Sýndu Vestfirðingarnir að lið þeirra stenst bestu liðum deildarinnar snúning þegar sá gállinn er á þeim.

Vestri á góða möguleika á sigri í leiknum, þótt ekkert sé svo sem öruggt í knattspyrnu, og með sigri færir liðið sig nær efstu liðum og blandar sér í toppbaráttuna.

DEILA