Ferðafélag Ísfirðinga: Tjaldanesdalur í Arnarfirði – Kirkjubólsdalur í Dýrafirði

Laugardaginn 9. júlí
Fararstjórn: Þórir Örn Guðmundsson.
Brottför: Kl. 8 á einkabílum frá Bónus á Ísafirði og 8:30 frá íþróttamiðstöðinni á Þingeyri.
Gengið er fram allan Tjaldanesdal og upp í skarðið milli Tjaldanesdals
og Göngumannsdals í Kirkjubólsdal. Þaðan niður Göngumannsdal og eftir
Tröllagötum í Kirkjubólsdal að Hofi og áfram í áttina til Þingeyrar.

Vegalengd um 11 km, áætlaður göngutími 5 -6 klst. og hækkun í um 500 m. Tveggja skóa ferð.

Þátttakendur vinsamlegast skrái sig fyrir kl. 12 föstudaginn 8. júlí á netfangi félagsins ferdafelag.isfirdinga@gmail.com

Hér er tækifæri til að anda að sér fjallaloftinu á einstöku svæði sem nefnt hefur verið Vestfirsku Alparnir og njóta um leið leiðsagnar fararstjóra sem farið hefur ótal ferðir um svæðið.

Fyrsti landnámsmaðurinn, Örn frá Rogalandi í Noregi, kaus að reisa sér bústað á Tjaldanesi ef marka má það sem kemur fram í frásögn Landnámubókar. Við hann hafa menn talið að fjörðurinn væri kenndur. Í fornum heimildum kemur fram að hann hafi þó aðeins verið hér einn vetur en selt þá öll lönd milli Langaness og Stapa í hendur Áni Rauðfeld. Örn hafi síðan flutt norður í Eyjafjörð. Þá hefur reyndar einnig komið fram sú kenning að nafn fjarðarins eigi rætur að rekja til konungs fuglanna sem enn sést stöku sinnum yfir Arnarfirði.

Fjallið ofan við Tjaldanes heitir Tjaldanesfell og efst í því er Tjaldaneshyrna. Tjaldanesdalur, langur og mjög þröngur dalur, skerst inn í landið til norð – norðvesturs utan við Tjaldanesfellið. Tjaldanesdalur er um 5 km langur. Uppi í hlíðinni sunnan við dalbotninn er stór gróðurlaus skál sem heitir Tröllakiki en þar sést aldrei sól. Í þessum sólarlausa fjallasal voru tröll talin búa og munu ýmsir hafa óttast þau og hraðað göngu sinni svo um munaði ef þungt fótatak heyrðist í fjarska.

Á 19. öld bjó á jörðinni Bjarni nokkur sem nefndur var „ á bullunni“ og var skv. frásögnum sterkasti maður í Arnarfirði á sinni tíð. Hann gat hamið mannýgt naut með því að leggja handlegginn um háls þess og herða að. Einnig er sagt að hann hafi jafnhattað séra Markús Þórðarson á Álftamýri og haldið honum með beinum handleggjum yfir höfði sér en líkamsþungi prests var talinn vera um 120 kíló.

Tjaldanes hefur verið í eyði síðan árið 1957 en húsið sem síðast var búið í stendur enn skammt frá sjó við Tjaldanesbug, innan við Tjaldanesá.

                                                 (Heimild: Vestfjarðaritið, Kjartan Ólafsson)

DEILA