Verðlaunahafar Skjaldborgar 2022

Skjaldborg – hátíð íslenskra heimildamynda var haldin á Petreksfirði í fimmtánda sinn um hvítasunnuhelgina. Tíu íslenskar heimildamyndir voru frumsýndar og sex verk í vinnslu voru kynnt. Hátíðinni lauk formlega í gærkvöld en samkvæmt hefðinni gengu gestir hátíðarinnar fylktu liði í skrúðgöngu frá Skjaldborgarbíói í Félagsheimili Patreksfjarðar að lokinni síðustu mynd og atkvæðagreiðslu. Verðlaunaafhending fór fram í félagsheimilinu áður en hljómsveitin Celebs lék fyrir dansi á lokaballi hátíðarinnar.

Áhorfendaverðlaunin Einarinn hlaut heimildamyndin Velkominn Árni eftir Viktoríu Hermannsdóttur og Allan Sigurðsson. Í myndinni heyrum við sögu Árna Jóns Árnasonar, sem á áttræðisaldri kemst óvænt að því hver faðir hans kann að hafa verið. Við fylgjum Árna eftir í leit að svörum um uppruna sinn og kynnumst þroskasögu manns sem hefur ekki alltaf þorað að fylgja eftir draumum sínum.

Heimildamyndin Hækkum rána eftir Guðjón Ragnarsson hlaut dómnefndarverðlaunin Ljóskastarann. Myndin fjallar um körfuboltaflokkur fyrir stelpur sem var stofnaður 2015 en þjálfarinn var óvenjulegur og hækkaði sífellt rána. Þær voru þjálfaðar sem leiðtogar utan vallar og afrekskonur innan vallar. Þetta er saga 8-13 ára stúlkna sem vildu breyta viðmiðum í kvennakörfu á Íslandi. Með miklum fórnarkostnaði mættu þær mótlætinu sem því fylgdi.

Dómnefndin, sem samanstóð af leikstjóranum Kristjáni Loðmfjörð, Hrönn Sveinsdóttur og Önnu Gyðu Sigurgísladóttur, hafði eftirfarandi að segja um verðlaunamyndina “ Verkið vakti mestu og áhugaverðustu umræðurnar, formið var skarpt og einfalt en efnið lyfti myndinni upp á hærra plan. Myndinni tókst að komast mjög nálægt viðfangsefnum sínum og fanga viðkvæm og erfið augnablik í lífi fólks. Myndin skilur eftir sig stórar spurningar og afhjúpar ólík sjónarmið sem snerta ekki bara íslenskt samfélag heldur heiminn allan.” Því miður átti leikstjórinn ekki heimangengt en framleiðandi myndarinnar Margrét Jónasdóttir veitti þeim viðtöku fyrir hönd Sagafilm. 

Hvatningarverðlaun Skjaldborgar hlaut myndin Thinking about the Weather eftir Garðar Þór Þorkelsson sem dómnefnd þótti sameina marga af mikilvægum þáttum heimildamyndargerðar. Myndin fjallar um viðfangsefni sem skiptir okkur öll miklu máli, þrátt fyrir að við séum kannski ekki alltaf á sömu skoðun. Örvæntingarfullur vegna yfirvofandi loftslags-heimsenda fer kvikmyndagerðarmaðurinn í för um Bretlandseyjar. Leiðin liggur til afskiptra byggða sem brátt munu sökkva í sæ. Hann vonar að þar geti hann lært að takast á við kvíðann sem fylgir því að lifa í dauðadæmdri veröld, en mannskepnan bregst við með ófyrirsjáanlegasta móti. Í umsögn dómnefndar segir: “Myndin nær að kjarna viðfangsefnið á fyndinn, skapandi, einstakan, og jafnframt absúrd máta. Hér er á ferðinni sterk höfundarrödd og dómnefndin vill hvetja þessa rödd til frekari verka.”

Tækjaleigan Kukl og eftirvinnslufyrirtækið Trickshot veita veglegt verðlaunafé til vinningshafa Einarsins og Ljóskastarans sem hvor um sig hlýtur inneign að verðmæti 500 þúsund krónur í tækjaleigu og 250 þúsund krónur í formi eftirvinnslu. Hvatningarverðlaununum fylgir einnig 50 þúsund króna inneign í hljóðdeild Pfaff.

Hrönn Sveinsdóttir sat í dómnefnd.

DEILA