Níu starfsmönnum Skagans3x á Ísafirði sagt upp vegna endurskipulagningar

Níu starfsmönnum Skagans3x á Ísafirði var sagt upp á þriðjudaginn.

Að sögn Guðjóns M Ólafssonar forstjóra Skagans3x hafa ytri aðstæður á mörkuðum verið fyrirtækjum undir hatti Skagans3X mjög erfiðar undanfarin tvö ár. „Afleiðingar Covid þekkja allir en stríðsátökin í Austur-Evrópu hafa m.a. leitt til hækkandi hráefnisverðs, hækkunar verðs á íhlutum og ekki síst hefur þrengt mjög að mörkuðum. Þessar erfiðu aðstæður eru ástæðan fyrir þeim skipulagsbreytingum sem við ráðumst nú í.

Framvegis verða öll okkar verkefni seld og afhent til viðskiptavina frá Akranesi en ekki á báðum stöðum eins og verið hefur fram að þessu.

Á Ísafirði verða framleiddir íhlutir og minni vörur fyrir stærri vörulausnir samstæðunnar. Einnig verða innkaup og vöruhús á einum stað í framtíðinni í stað tveggja áður. Þá er sú stefna mörkuð nú að auka áherslu á vöruþróun fyrirtækjanna og þjónustu á Ísafirði. Starfsmannahópurinn tekur því breytingum í ljósi þess“ segir Guðjón að lokum.

DEILA