Tónlistarskólinn Ísafirði: Endurmenntunarferð til Umgverjalands

Eftir að skólaárinu lauk brugðu kennarar Tónlistarskólans á Ísafirði sér til Ungverjalands til þess m.a. að kynna sér aðferðir og nýja strauma í sínu fagi. Bea Joó píanókennari er frá Szeged í Ungverjalandi og hún skipulagði ferðina. Nýtti hún sér m.a. góð tengsl sín í Tónlistarskólanum í Szeged til að koma á kynningum á forskólakennslu, byrjendakennslu í hljóðfæranámi og tónfræðikennslu. 

Á vefsíðu Tónlistarskólans segir að það hafi verið „einstaklega ánægjulegt að sitja þessar kynningar, öll kennsla er eins og leikur og í fullkomnu flæði, þannig að aldrei er gefinn kostur á að beina athyglinni annað. Nemendur eru vel þjálfaðir í að standa og sitja eins og fullorðið fólk. Forskólabörnin komu meira að segja í sparifötunum og höfðu meðal annars undirbúið að syngja fyrir okkur Fann ég á fjalli (Óskasteinar) á íslensku, en lagið er raunar ungverskt þjóðlag.“

Að loknum heimsóknum í Tónlistarskólann í Szeged hélt hópurinn til Búdapest og brá sér á tónleika í stórglæsilegum sal Franz Liszt akademíunnar, en þar var Sálumessa Mozarts á dagskrá í mikilfenglegum flutningi. 

Tengill á frásögn af ferðinni https://tonis.is/frettir/endurmenntunarferd-til-budapest-og-szeged/?fbclid=IwAR1_n6nvxrTg9PBTvgBbgW8SJ-YJvFP6LOd1bJaAPezzYMPdILKXvXn9D5I.

Mæðginin Bea og Aron Ottó. Hinn efnilegi bassasöngvari og sonur Beu og Jóa, stundar nám við Tónlistarakademíuna í Búdapest og býr meira að segja í sömu heimavist og Bea gerði á sínum tíma, sem og óperusöngkonan föðursystir Beu, þegar þær voru í skólanum. Það má því segja að tónlist gangi mann fram af manni í fjölskyldunni.

Myndir: Tónlistarfélag Ísafjarðar.

DEILA