Skjaldborg – hátíð íslenskra heimildamynda haldin um hvítasunnuhelgina

Skjaldborg – hátíð íslenskra heimildamynda verður haldin um hvítasunnuhelgina á Patreksfirði dagana 3. – 6. júní 2022. Eftir reikul ár í heimsfaraldri er hátíðin loks komin aftur í sitt upprunalega form og nú verður fagnað! 

Enginn verður svikinn af heimildamyndaveislu, gæðastundum í Skjaldborgarbíói, skrúðgöngu, plokkfiskveislu, limbókeppni og sumarnóttinni á Patreksfirði. Í ár verður einnig sérstök áhersla lögð á notkun sögulegs efnis í heimildamyndagerð.

Skjaldborg er kraftmikil uppskeruhátíð heimildamyndahöfunda og eina íslenska kvikmyndahátíðin sem sérhæfir sig í að frumsýna íslenskar heimildamyndir. Reynsluboltar í faginu, byrjendur og hinn almenni áhorfandi koma saman á hátíðinni í skemmtilegu og skapandi samtali sem gegnir mikilvægu hlutverki fyrir þróun og miðlun íslenskrar heimildamyndagerðar. 

Dagskráin í Skjaldborgarbíó verður fjölbreytt og auk heimildamynda og kynningu á verkum í vinnslu verður Kvikmyndasafn Íslands með sér dagskrárlið, Ari Eldjárn fylgir áhorfendum gegnum myndefni frá fjölskyldu sinni og Björg Sveinbjörnsdóttir frá Hversdagssafninu á Ísafirði gefur áhorfendum innsýn í hljóðin úr eldhúsi ömmu sinnar.


Þá verður heimamyndadagur hluti af hátíðinni og einn dagskrárliðurinn er því óborganlegt heimamyndabingó sem spilað er upp úr heimagerðu myndefni Vestfirðinga. Á heimamyndadegi taka sérfræðingar Heimamyndasamsteypunnar við heimagerðum hreyfimyndum fólks á ýmsum miðlum; filmum af háaloftinu, vídeóspólum eða stafrænu efni. Farið er yfir ástand efnisins og það lagfært – og úrval heimamynda verður sýnt á stóra tjaldinu!

DEILA