Bikarkeppnin: Vestri vann Víði 2:0

Frá kenninni í Egilshöll um helgina. Mynd: Valur Richter.

Knattspyrnulið Vestra lagði lið Víðis í Garði í annarri umferð Mjólkurbikarsins á laugardaginn. Leikið var á Álftanesi þar sem völlurinn á Ísafirði er ekki leikfær. Eftir um klukkutíma leik skoraði Pétur Bjarnason og kom Vestra yfir. Tíu mínútum fyrir leikslok skoraði Guðmundur Arnar Svavarsson annað mark og urðu það lokatölur leiksins. Vestri heldur áfram í þriðju umferð bikarkeppninnar en Víðir er úr leik.

Af öðrum íþróttum helgarinnar má nefna að Skotfélag Reykjavíkur hélt STI Íslandsmeistaramót í Þrístöðu í gær í Egilshöll í Reykjavík.

Félagar í Skotís, Skotíþróttafélagi Ísafjarðarbæjar,  voru að sjálfsögðu með og stóðu sig vel. Valur Richter varð þriðji í karlaflokki og Guðrún Hafberg varð í öðru sæti í kvennaflokki. Í liðakeppni varð lið Skotís í öðru sæti.

DEILA