Úrskurðarnefnd umhverfis og auðlindamála hefur hafnað með öllu fjórum kærum sem nefndinni bárust á síðasta ári.

Sólarlag í Djúpinu séð frá Ögurnesinu. Mynd: Jón Páll Hreinsson.

Úrskurðarnefnd umhverfis og auðlindamála hefur hafnað með öllu fjórum kærum sem nefndinni bárust á síðasta ári.

Kærurnar voru vegna leyfis Háfells til eldis á laxi í sjókvíum í Ísafjarðardjúpi.

Tvær kærur vörðuðu útgefið starfsleyfi Umhverfisstofnunar til Háafells fyrir 6.800 tonna eldis á frjóum laxi og aðrar tvær voru vegna rekstrarleyfisins sem Matvælastofnun gaf út fyrir sömu starfsemi.

Annars vegar var það Arnarlax sem kærði bæði leyfin og hins vegar Laxinn lifi, íslenski náttúruverndarsjóðurinn ( IWF) og Náttúruverndarsamtök Íslands sem stóðu saman að kæru á starfsleyfi Umhverfisstofnunar og kærðu einnig rekstrarleyfi Matvælastofnunar.

Þar sem Umhverfisstofnun og Matvælastofnun gefa út leyfin eru stofnanirnar kærðar og þess krafist að leyfin verði felld úr gildi.

Háafell sem er leyfishafinn var ekki aðili að málinu.

Eftir að hafa gert ítarlega grein fyrir málinu segir að með vísan til alls þess sem að framan er rakið eru ekki þeir form- eða efnisannmarkar á undirbúningi eða meðferð hinna kærðu ákvarðana að ógildingu varði og verður kröfum kærenda þar um því hafnað og að  Háafelli ehf. hefur rekstrarleyfi fyrir kynslóðaskiptu sjókvíaeldi á laxi í Ísafjarðardjúpi með 6.800 tonna hámarkslífmassa vegna frjós lax annars vegar og ófrjós lax hins vegar.

Aðspurður um viðbrögð við þessu segir Gauti Geirsson framkvæmdastjóri Háafells:  „Við hjá Háafelli höfum lagt okkur fram um að vanda okkur og fylgja öllum lögum og reglum í þessu langa ferli sem nú telur 11 ár allt í allt. Það er því ánægjulegt að úrskurðarnefndin staðfesti það í þessum úrskurði að leyfin okkar eru fullgild. Nú getum við einbeitt okkur að næstu spennandi skrefum í uppbyggingu fiskeldis við Ísafjarðardjúp.“

DEILA