Friðlandið í Vatnsfirði á Barðaströnd

Vatnsfjörður. Mynd: Úlfar Thoroddsen.

Finnbogi Hermannsson  ritaði grein í BB þann 7. mars um hugmynd Orkubús Vestfjarða að byggja vatnsorkuver í Vatnsfirði á Barðaströnd. Sá áhugi er skiljanlegur í ljósi skorts. Vatnsorkuver á því svæði er talið heppilegasti kosturinn fyrir Vestfirði. Heppilegri og öruggarri kostur en endurbygging og styrking á flutningskerfi Landsnets. Hann finnur hugmyndinni  allt til foráttu og samandregið: græðgi sem leiðir til slátrunar og eyðileggingu á náttúruvéum.

Til að byggð að haldist og blómstri á Vestfjörðum þarf næga raforku og örugga dreifingu. Því miður er hvorugt í hendi. Nú er staðan sú að orkuskortur herjar á ýmisa starfsemi í landinu. Staða sem varað hefur verið við.  Sumir segja ekkert þurfi að gera, næg orka í kerfinu og aðeins að laga, endurstilla og styrkja flutningskerfin og slökkva á stóriðjunni. Aðrir segja að virkja þurfi um 100 MW- afl árlega næstu áratugina. Bilið er langt þar á milli.

Vestfirðingar og allir landsmenn búa við orkuknúið efnahagslíf og þannig verður það og því þarf að mæta. 

Friðlandið í  Vatnsfirði. Af lýsingu Finnboga mætti ætla að friðland Vatnsfjarðar sé ósnortið. Það er fjarri sanni.  Þau eru mörg örin í ásjónu landsins umhverfis Vatnsfjörð og næsta nágrennis. Því miður of mörg. Ör sem bæði einstaklingar, fyrirtæki og stofnanir hafa valdið með athöfnum sínum. Fátt eða ekkert hefur verið gert til að mýkja þau og græða. Umhverfisstofnun, sem fer þar með ábyrgð og umsjón, hefur engan veginn rækt hlutverk sitt.  Vegagerðin hefur staðið sig í seinni tíð og má vísa í frágang meðfram veginum um Hörgsnes. Vegarslóðinn að baki Botnshnúks og Vatnsdals, sem lagður var í tengslum við raflínulögn, er samfelld ljót rispa í ásýnd landsins. Sama á við um aðra sambærilega vegarslóða á sunnan verðum Vestfjörðum. Þeir eru of margir. Eitt nýjasta dæmið er slóðinn hæst á Dynjandisheiði sem liggur út eða vestur háfjallið milli Geirþjófsfjarðar og Mosdals. Hann tengist örbylgjumastri. Engar kröfur virðast gerðar til slíkra framkvæmda. Leyfi veitt af viðkomandi stjórnvöldum án skilyrða um viðunandi frágang. Enginn minnist á spjöll. Landið, sem hefur orðið fyrir þeirri röskun, er hvorki upphafið sem náttúruvé né metið til slíkra verðmæta. Á sér ekki formælendur.

Þegar nú er komin fram hugmynd um vatnsorkuver í Vatnsdal hefjast mótmælaraddir. Án þess að vitað sé nánar um áform Orkubúsins má búast við því, að sú framkvæmd myndi ekki raska meiru í friðlandi Vatnsfjarðar á Barðaströnd en aðrar mannanna athafnir þar og þau mannvirki sem þegar eru risin. Vatnsorkuver, að mestu hulið sjónum, myndi ekki verða minni prýði en þau sem fyrir standa og þykja sjálfsögð. Jafnframt myndi opnast aðgangur að nánst lokuðu landi við Vatnsdalsvatn og þar með sýn á hulið umhverfið. Líta má á það sem réttlætismál að landsmenn hafi sem jafnastan og greiðastan aðgang að landinu og sérstaklega, ef unnt er með góðu móti að opna það með akfærum og snyrtilegum vegarslóðum. Nægir að nefna Kjaransbraut. Að aka, hjóla eða ganga úr Keldudal fyrir Sléttanes og inn Arnarfjörð og hafa sýn á fjörðinn og  útlínurnar umhverfis hrífur flesta.  

Þar sem raforkuver í Vatnsdal er komið í umræðu á það að vera skýr krafa til Orkubús Vestfjarða  að upplýsa almenning um hugmyndina, umfang og tilhögun framkvæmda. Verður orkuverið í botni Vatnsdals eða sunnan við Lambagil við austurströnd vatnsins eða annars staðar í dalnum?

Þegar þær upplýsingar liggja fyrir er efni til vega og meta og ræða kosti og galla.  

Patreksfirði 11. mars 2022

þegar aðeins er farið að glitta í vorið með komu farfugla og hækkandi sólar.

Úlfar B Thoroddsen

DEILA