Er ekki kominn tími til að setja leikskólabörn Ísafjarðarbæjar í fyrsta sæti

Kristbjörg Tinna Sigurðardóttir

Börn á leikskólaaldri hér í Ísafjarðarbæ eru heppin með það hafa tvo ólíka leikskóla, Eyrarskjól og Sólborg sem eru með ólíkar stefnur og námsumhverfi og er það val hvers foreldra að velja þann leikskóla sem hentar þeirra barni.

Ég valdi leikskólann Eyrarskjól af góðum og gildum ástæðum fyrir mín börn og er afskaplega gaman að sjá börnin sín blómstra í sínu leikskólastarfi sem og að sjá hversu örugg þau eru í sínu umhverfi.

En þegar börnin eru komin á 5 ára aldur í bæjarfélaginu eru þau öll tilneydd án þess að hafa eitthvað val og hvað þá foreldrar barnanna að fara á Tanga. En 5 ára deildin Tangi er stjórnuð af Sólborg, öðrum leikskóla Ísafjarðarbæjar. Stofnun Tanga var tekin sem bráðabirgðalausn árið 2016 og framkvæmd 2017 þar sem það vantaði leikskólapláss í bæjarfélaginu og var þá ekki komið á dagskrá stækkun Eyrarskjóls. En stækkun á leikskólanum Eyrarskjóli hófst árið 2019 og nýbyggingin tekin í notkun ári síðar.

Ég sem foreldri 5 ára barns er ekki einungis stödd á þeim stað að bæjarfélagið sé að taka barnið mitt úr því umhverfi sem það unnir sér best, þekkir alla starfsmenn leikskólans og er öruggt, heldur er bæjarfélagið einnig að taka frá því alla þá vinnu sem er verið að leggja í við að aðstoða barnið minn innan leikskólans.

Barnið mitt hefur lengi verið á biðlista eftir talmeinafræðingi sem bæjarfélagið á að skaffa barninu og seint á síðasta ári fengum við foreldrarnir þær fréttir að það fengi einn tíma á mánuði hjá talmeinafræðingi, ef það er flogið og talmeinafræðingurinn komist vestur. Þeir foreldrar sem þekkja til vita að einn tíma á mánuði er alls ekki nóg fyrir barn komið á þennan aldur og tók Eyrarskjól það ráð að ráða starfsmann sem sinnir einungis ákveðnum verkefnum og aðstoðar börnin eins og mitt barn með erfiðleika sem koma fram í tali. Ég get sagt það að barnið mitt væri ekki búið að ná svona miklum framförum ef það væri ekki fyrir þennan starfsmann sem aðstoðar barnið mitt vikulega eftir leiðsögn talmeinafræðings. En núna í sumar fer barnið mitt á Tanga og missir því þessa aðstoð sem og önnur börn Eyrarskjóls þar sem starfsmaðurinn vinnur einungis á leikskólanum Eyrarskjóli. Ég vil ekki hugsa það til lengdar hvers konar afleiðingar það getur haft fyrir mitt barn sem og önnur börn sem þurfa á þessari auka aðstoð að halda og missa hana skyndilega og hverjar afleiðingarnar geta orðið þegar þau fara svo í grunnskóla.

Ég hef velt því lengi fyrir mér hvort að Ísafjarðarbær sé alveg sama um velferð barnanna, öryggi þeirra og hvort bæjarfélagið finnist það virkilega vera að setja leikskólabörnin í fyrsta sæti. Frá því að við fjölskyldan ákváðum að flytja vestur árið 2020 hef ég annað slagið sent póst á Ísafjarðarbæ og spurt hvort að ekki sé kominn tími til að setjast niður og meta þessa bráðabirgða lausn sem Tangi átti að vera upp á nýtt, sérstaklega í ljósi þess að búið er að stækka annan leikskólann. Þau svör sem ég hef fengið er nei og Tangi er að vinna mjög gott starf.

Það sem vekur undrun mína er að það er enginn að tala um að Tangi sé ekki að vinna gott starf heldur er verið að hugsa fyrst og fremst um börnin, af hverju mega þau ekki klára sín leikskólaár á sínum leikskóla, af hverju mega þau ekki vera í sínu umhverfi og finna áfram fyrir öryggi síðasta árið sitt. Þó svo þau klári leikskólaárin sín í sínum leikskóla geta þau heimsótt grunnskólalóðina og skoðað grunnskólann og undirbúið sig fyrir 1. bekk, það þarf ekki Tanga til þess. Einnig geta börnin á Eyrarskjóli og Sólborg heimsótt hvort annað, eins og var gert fyrir tíma Tanga.

Grunnskólalóðin er umtöluð hvort hún henti 5 ára börnum og einnig þurfa þau að fara yfir götu til að komast á lóðina. En þessi litla gata er fremur þung umferðargata þar sem foreldrar Tanga keyra þar um, foreldrar grunnskólabarna keyra þar um sem og kennarar og annað starfsfólk. Ekki er heldur langt síðan það var keyrt yfir barn á þessari götu og það sem enn þá verra er að ekkert var gert svo að svona slys gæti ekki gerst aftur. Því spyr ég, hvenær verður keyrt yfir leikskólabarn þarna? Þarf barn að deyja til að fólk átti sig á að þetta er ekki hentug staðsetning fyrir leikskóla.

Ég hvet Ísafjarðarbæ til að skoða hvort bráðabirgðalausnin Tangi sé ennþá nauðsynleg og hvort það sé hægt að setja leikskólabörnin í fyrsta sæti og gert það sem er þeim fyrir bestu en ekki bæjarfélaginu. Einnig hvet ég bæjarfélagið að hætta að hóta því að með því að loka Tanga hætta leikskólarnir að taka inn 12 mánaðar gömul börn, barnafjöldi bæjarins hefur farið minnkandi og gerir það enn og stækkun Eyrarskjóls hefur verið gott sem tóm og ónotuð. Þurfum við að reka þrjá leikskóla þegar nóg er að reka tvo og gæti það orðið til þess valdandi að Ísafjarðarbær lækki þá leikskólagjöldin eins og önnur sveitarfélög eru að gera í staðinn fyrir að hækka þau eins og foreldrar leikskólabarna Ísafjarðarbæjar fengu í andlitið á nýju ári.

Höfundur er Kristbjörg Tinna Sigurðardóttir móðir og grunnskólakennaranemi.

DEILA