7,5% störfuðu í menningu á árinu 2021

Árið 2021 störfuðu um 7,5% af heildarfjölda 16-74 ára á íslenskum vinnumarkaði við menningu samkvæmt vinnumarkaðsrannsókn Hagstofu Íslands (VMR) eða 14.600 manns. Hlutfallið hækkaði lítillega frá 2020 þegar það var 7,1% en það var einnig 7,1% árið 2019.

Hlutfallslega var fækkun starfandi í menningu á milli áranna 2019 og 2020 sambærileg við vinnumarkaðinn allan, um 3%.

Það bendir til þess að heilt yfir hafi áhrif kórónuveirufaraldursins á vinnumarkaðinn verið svipuð fyrir starfandi í menningu og aðra á íslenskum vinnumarkaði, þó með þeim fyrirvara að ekki er lagt mat á breytingar í vinnutíma.

Tölurnar benda einnig til þess að viðspyrnan hafi verið hraðari í menningu en í öðru þar sem starfandi fjölgaði talsvert meira í menningu en utan hennar á milli 2020 og 2021, um 9% samanborið við 3,1%. Þá benda tölurnar til þess að þróunin á tímum faraldursins, á milli 2019 og 2021, hafi innan menningar verið afar misjöfn eftir kyni og ráðningarsambandi.

Starfandi körlum í menningu fjölgaði um 12,3% á milli 2019 og 2020 á meðan að starfandi konum í menningu fækkaði um 16,4%. Þá fjölgaði starfandi körlum í menningu um 9,6% á milli 2020 og 2021 en konum um 8,2%.

DEILA